Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins telur aðgerðir fyrirtækisins, um að nýta hlutabætur ríkisins fyrir 400 starfsmenn, hafa verið nauðsynlegar til að sýna bæði rekstrarlega og samfélagslega ábyrgð og til að vernda þau 600 störf sem eftir standa eftir. Bláa lónið verður tekjulaust út apríl og tekjulítið út maí að sögn Gríms.

Eiginfjárstaða fyrirtækisins er sterk og hefur fyrirtækið verið gagnrýnt fyrir að nýta sér neyðarúrræði ríkisstjórnarinnar í stað þess að ganga á eigið fé fyrirtækisins.

„Það er svo sem eðlilegt að menn spyrji þessa en kjarninn er þessi: Við erum að reyna að verja þessi 600 störf. Ef við hefðum ekki nýtt þetta úrræði, sem ég tel hafi verið mjög gott útspil hjá ríkisstjórninni, að reyna að tryggja ráðningarsamband milli fyrirtækja og starfsmanna sem lengst og minnka þörf á uppsögnum, þá hefðu í okkar tilviki uppsagnirnar verið meiri,“ sagði Grímur í spjalli við þáttastjórnendur Morgunþáttar Rásar 1 og 2 í morgun.

Grímur segir stjórnendur hafa ekki farið í djúpa greiningu á mögulegum uppsögnum ef fyrirtækið hefði ekki nýtt sér úrræði ríkisins en þó hafi verið ljóst að höggið hefði orðið þyngra.

Bláa lónið lokaði tímabundið starfs­stöðvum fyrir viku og sögðu upp 164 starfs­mönnum fyrir­tækisins upp störfum. Eftir niður­skurðinn starfa 600 manns hjá fyrir­tækinu.

Félagið bauð 400 starfsmönnum að fara í hlutastörf og fá í kjölfarið hlutabætur frá ríkinu. Eigendur Bláa lónsins hafa verið gagnrýndir harðlega fyrir þetta en í fyrra greiddu þeir sér 4,3 milljarða króna í arð.