Tjón hafa verið meiri það sem af er ári en í fyrra hjá Sjóvá, að sögn Jóhanns Þórssonar markaðsstjóra tryggingafélagsins.

„Tíðarfarið í febrúar og það sem af er mars hefur sannarlega verið óvenjulegt í samanburði við síðustu ár. Það hefur leitt af sér aukinn fjölda tjóna, aðallega smærri kaskótjóna sem stafa af nuddi, uppfoki hurða og hálkuslysum,“ segir hann.

Jóhann segir að hafa beri í huga að síðustu vetur hafi verið óvenjusnjóléttir.

„Samanburður við þennan vetur er því ekki alveg sanngjarn en heilt yfir erum við að horfa í hressilega vetrarmánuði sem eru þó ekki óvenjulegir í sögulegu samhengi, hvorki með fjölda tjóna né tjóna­tíðni,“ segir hann.


Sam­sett hlut­fall varpar ljósi á hvernig rekst­ur vá­trygg­inga­hluta trygg­inga­fé­lags geng­ur. Hlutfallið ber saman iðgjöld og út­gjöld vegna vá­trygg­inga. Kostn­að­ur vegna fjár­fest­inga­hlutans er undanskilinn. Ef hlutfallið er undir 100 prósentum stendur tryggingareksturinn undir sér. Samsett hlutfall Sjóvár var 90,9 prósent á árinu 2021 samanborið við 92,0 prósent árið 2020.