Samkvæmt árstíðarleiðréttum niðurstöðum vetrarkönnunar Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins batna atvinnuhorfur töluvert frá sömu könnun í haust. Enginn munur var á hlutfalli fyrirtækja sem vildu fjölga starfsfólki og þeirra sem vildu fækka en hann var neikvæður um 21 prósentu í haustkönnuninni. Þetta kemur fram í Peningamálum.

„Þróunina má bæði rekja til þess að fleiri stjórnendur vilja fjölga starfsfólki og að færri vilja fækka því en hvor hópur inniheldur um fimmtung fyrirtækja í vetrarkönnuninni. Batinn var þvert á atvinnugreinar en sérlega mikill viðsnúningur varð í viðhorfi stjórnenda í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu,“ segir í Peningamálum.

Í haust var munurinn neikvæður um nærri 50 prósentur í atvinnugreininni og voru horfurnar hvergi verri en í vetrarkönnuninni mældist hann jákvæður um 10 prósentur og voru horfurnar hvergi betri.

Ljóst er að jákvæðar fréttir af bóluefnum gegn farsóttinni hafa aukið bjartsýni meðal stjórnenda fyrirtækja og vísbendingar eru um að fækkun starfa fari að stöðvast.

„Að sama skapi eru blikur á lofti um að þjóðarbúskapurinn nálgist botn hagsveiflunnar en lítil fjölgun gjaldþrota fyrirtækja og vannýtt framleiðslugeta skapa grundvöll fyrir viðspyrnu. Slakinn í þjóðarbúskapnum er þó mikill og nokkurn tíma mun taka að vinda ofan af því atvinnuleysi sem hefur myndast,“ segir í Peningamálum.