Breytt hlutfall nýrra og eldri íbúða kann að ýkja hækkanir í mælingu íbúðaverðs þar sem fermetraverð nýrra íbúða er yfirleitt hærra en eldri íbúða, segir í Peningamálum Seðlabankans.

Þinglýstum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 10 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra en samningum með nýbyggingar fjölgaði töluvert meira eða um tæp 59 prósent, að því er fram kemur í Peningamálum.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 5,6 prósent milli ára í september en síðan farsóttin hófst hér á landi í lok febrúar hefur verðið hækkað um 4 prósent.

Mynd/Seðlabankinn

Velta á íbúðamarkaði hefur verið mikil að undanförnu en vaxtalækkanir Seðlabankans hafa örvað eftirspurn og vegið á móti neikvæðum efnahagsáhrifum farsóttarinnar.

Hlutfall fyrstu kaupenda á höfuðborgarsvæðinu af heildarfjölda kaupenda hefur jafnframt hækkað á undanförnum árum en það mældist um 29 prósent á fyrri helmingi ársins og hefur aldrei mælst hærra.