Jafnréttis- og fjölbreytnifyrirtækið Empower hefur þegar tryggt sér drjúga fjármögnun frá Frumtaki og Tennin. Hugbúnaðarlausnin nefnist Empower Now og er ætlað er að hjálpa fyrirtækjum að ná betri árangri í jafnréttismálum.

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir gríðarlega eftirspurn eftir slíkum hugbúnaði um allan heim.

„Það sem Empower gengur út á er að taka sannreynda aðferðafræði og setja hana inn í hugbúnað. Við höfum í gegnum tíðina unnið með Alþingi, ríkislögreglustjóra og fjölmörgum einkafyrirtækjum og þróað lausn sem við vitum að virkar,“ segir Þórey.

En hugbúnaður Empower er ekki bara mælaborð sem gefur yfirsýn, að sögn Þóreyjar, heldur býður hann upp á fræðslu sem hjálpar fyrirtækjum að bæta sig og ná settu marki í jafnréttismálum.

Fyrirtæki eru í auknum mæli að lenda í vandræðum með til dæmis eitraða vinnustaðamenningu.

„Þar höfum við lagt áherslu á óhefðbundna fræðslu. Þetta er meira í anda Instagram, TikTok og þess efnis sem við sækjum okkur sjálf og er á formi sem við könnumst við.“

Þórey segir lausnina svara skýru ákalli um allan heim.

„Þetta er gríðarlega stór markaður. Fyrirtæki eru í auknum mæli að lenda í vandræðum með til dæmis eitraða vinnustaðamenningu. Þau ná ekki að laða til sín yngri starfsmenn og höfða ekki til ákveðinna hópa samfélagsins. Vegna þess að þau huga ekki nægilega að fjölbreytni og jafnrétti. Þetta er orðið mjög útbreitt vandamál og þetta er dýrt fyrir fyrirtækin,“ segir Þórey.

„Við getum tekið dæmi um fyrirtæki eins og Google. Þau hafa verið að borga mörg hundruð milljónir dollara í sektir á undanförnum árum vegna þess að fyrirtækið mismunar starfsfólki í launum og nær ekki að vinda ofan af eitraðri menningu.“

Þórey segir vandamálið ekki nýtt en það sé að koma meira og meira upp á yfirborðið eftir MeToo- byltinguna. Fyrirtækin þurfi því aðstoð, tól og tæki til að vinda ofan af vandamálum sem tengjast mannauðsmálum.

Ég segi alltaf að við séum skást í jafnréttismálum því alls staðar eigum við sannarlega langt í land.

Empower tekur ekki bara til ákveðinna þátta sem geta haft áhrif að sögn Þóreyjar.

„Við erum ekki að einblína bara á stakar breytur eins og laun til dæmis, heldur alla fleti sem snerta jafnrétti og fjölbreytni. Það skiptir til dæmis miklu máli hvernig ímynd fyrirtækisins er og hvernig það birtist út á við. Fyrirtæki eru farin að setja sér markmið í þessum efnum og eru þar af leiðandi að leita að aðferðum og tækni sem virkar. Það er það sem Empower Now færir þeim.

Þórey segir það spila stóra rullu í öllu ferlinu að Empower sé frá Íslandi. „Við teljum okkur vera í fararbroddi í jafnréttismálum. Þótt ég segi alltaf að við séum skást í jafnréttismálum því alls staðar eigum við sannarlega langt í land. En þetta er einn liður í því að nýta það góða sem einkennir okkar samfélag og byggja á styrkleikunum,“ segir Þórey.

Stefnt er að því að hleypa Em­power Now-hugbúnaðinum af stokkunum strax á næsta ári