Auðvelda þarf fleiri atvinnugreinum en ferðaþjónustunni að leggjast í híði þegar hert er á sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda, að mati Konráðs Guðjónssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.

„Það þarf að endurhugsa aðgerðir stjórnvalda til fyrirtækja í vanda vegna faraldursins. Staðan í dag er allt önnur en fyrir einungis tveimur vikum,“ segir Konráð. Líkt og greint var frá í blaðinu í gær útilokar fyrirkomulag lokunarstyrkja bætur til fjölmargra fyrirtækja og er óljóst hvort þjónustuiðnaður á Íslandi komi til með að þola aðra umferð takmarkana.

„Þegar við nálguðumst þetta í vor þá virtust flestir búast við því að þetta yrði vont högg í skamman tíma. Núna horfir þetta öðruvísi við því að þetta gæti verið viðvarandi og sveiflukennt ástand í marga mánuði. Það kallar á aðra nálgun,“ segir Konráð.

„Það er vonandi enginn að tala um að opna ríkissjóð upp á gátt, það þarf að fara vel með almannafé. Það eru færri skot eftir í byssunni núna en í vor. Það sem við þurfum nú er að skerpa á áherslum og aðgerðum.“

Konráð telur að stjórnvöld þurfi að þróa áfram úrræðin sem hafa verið í boði, þar á meðal hlutabótaleiðina, brúarlánin og lokunarstyrki.

„Þegar hlutirnir verða betri þá þurfa að vera forsendur fyrir því að hægt sé að opna á ný staði sem þurfti að loka. Þeir þurfa að geta haldið ráðningarsambandi við starfsfólk til dæmis, þannig að þegar við komumst út úr þessu séum við með fyrirtæki sem séu ekki hálf lömuð og geti ekki veitt þjónustuna sem við þurfum frá þeim, sama í hvaða geirum það er,“ segir Konráð.

„Það hefur verið talað um að ferðaþjónustan þurfi að leggjast í híði, það þarf kannski að horfa sömu augum á fleiri geira.“

Hann telur að grípa megi tækifærið nú þegar ríkisfjármálin eru í deiglunni og vinna við fjárlög í fullum gangi til að líta til þess þar sem líklegt sé að meiri hömlur verði á næsta ári en margir héldu fyrir stuttu.

„Ein stærsta aðgerðin hefur verið hlutabótaleiðin, það er búið að skala hana niður og búið að draga lærdóm af henni. Augljósast er að fara í einhvers konar útvíkkun á því úrræði fyrir fyrirtæki sem lenda hvað verst í þessari bylgju.“

Fram kom í gær að dæmi væru um að minni fyrirtæki hefðu þurft að verja stórum hluta lokunarstyrksins í lögmannskostnað til að harka út styrkina frá skattinum.

„Ef rétt er þá er úrræðið fallið um sjálft sig. Það þurfa að vera skýr skilyrði fyrir styrkjum, ef kerfið er orðið of flókið þá erum við ekki að nýta peninga skattgreiðenda vel. Þetta þarf að vera einfalt og sveigjanlegt til að styrkirnir renni til sjálfra fyrirtækjanna og starfsfólks þeirra.“

Konráð Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs“Það eru færri skot eftir í byssunni núna en í vor. Það sem við þurfum nú er að skerpa á áherslum og aðgerðum.”