Verið er að ná mörgum markmiðum í einu og því er það ekki aðalatriði hvort hæsta verð náist fyrir eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Þetta kom fram á hádegisfundi efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins með Bjarna sem fram fór í dag.

Líkt og greint var frá um helgina hefur Bjarni tilkynnt Bankasýslunni ákvörðun um að hefja sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Ráðuneytið hefur aflað umsagnar bæði fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um söluna eins og skylt er. Í greinargerð ráðuneytisins komu fram upplýsingar um markmið sölunnar og hvaða söluaðferð yrði beitt.

Um er að ræða sölu á 25 til 35 prósent eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka í almennu opnu útboði.

Gerir sér grein fyrir tortryggni

„Það birti aftur til, málið er komið aftur á dagskrá. Við erum búin með þinglega ferlið og málið er komið aftur til Bankasýslunnar,“ sagði Bjarni. „Nú fer Bankasýslan í að ráða ráðgjafa. Það fer beint í útboð.“ Getur það tekið nokkrar vikur. Þarf svo að kanna áhugann á markaðnum. Er það svo ákvörðun Bjarna hvort ráðast skuli í söluna, fallið yrði frá því til dæmis ef aðstæður væru ekki til þess fallnar á markaði eða hvort klára eigi söluna á eignarhlutnum.

„Ég finn enn fyrir því að menn tala um það í umræðum að menn tala fyrir því að laga umhverfið,“ sagði Bjarni. „Við gerum okkur grein fyrir því að það er tortryggni í garð sölu ríkiseigna í kjölfar bankahrunsins.“ Margt hafi breyst í lagaumhverfinu frá því sem það var fyrir hrun.

„Ég vil meina að sala í opnu og almennu útboði sé besta leiðin til að stíga þetta skref,“ sagði Bjarni. Til að eyða tortryggni þá þurfi að taka tillit til þess sjónarmiðs að ná dreifðri eignaraðild. Það sé einmitt ekki verið að leita eiganda að hlutnum þó að þannig fáist mögulega hærra verð. Aðspurður hvort hann ætti sér ósk um eigendur sagðist hann vona eftir góðri þátttöku frá almenningi.

„Ég á mér þá ósk að sjá mesta þáttöku frá íslenskum almenningi,“ sagði hann. „Það er ekki bara mikilvægt fyrir þróun fjármálakerfisins að vera með dreift eignarhald. Ég sé ekki fyrir mér að ákveðnir einstakir aðilar haldi upp á stærstum hlut.“

Geta ekki handstýrt hver eigi í bankanum

Bjarni sagði það ekki í verkahring þessarar ríkisstjórnar að selja Landsbankann eða afganginn af Íslandsbanka. Hugsunin að baki þess að eiga Landsbankann áfram er að tryggja að kerfislega mikilvægur banki sé með höfuðstöðvar á Íslandi. Íslandsbanki verði þó seldur á næstu misserum eða árum samkvæmt eigendastefnu.

„Við getum ekki með almennum reglum handstýrt því hver eignast stærstan hlut,“ sagði hann.

Varðandi frystar eignir ferðaþjónustufyrirtækja þá telur hann ólíklegt að nýir eigendur muni beita sér gegn þeim. „Ég hef einfaldlega ekki trú á því.“

Er Bjarni vongóður að söluandvirði bankans í heild gæti dekkað 119 milljarða króna fjárfestingaráætlun ríkisins í innviðum á næstu árum.

Tíminn sé heppilegur núna, bæði í ljósi stöðunnar á markaði og vel heppnuðu hlutafjárútboði Icelandair í fyrra þar sem almenningur sýndi mikinn áhuga.

„Bankinn er í ágætri stöðu núna til kynningar til fjárfesta. Bankinn er í stöðugum vexti,“ sagði Bjarni. „Við getum ekki gert ráð fyrir að stórar arðgreiðslur haldi áfram.“ Stórar arðgreiðslur síðustu ára hafi byggst mest á virðisbreytingum en ekki reglulegum rekstri.

Aðspurður um arðgreiðslu fyrir skráningu sagði hann það ekki hafa verið rætt. „Það hefur ekkert verið rætt um það að slík arðgreiðsla ætti sér stað fyrir skráninguna,“ sagði Bjarni. Miðað við reglur sem gilda fram á haust geti það verið rúmlega 3 til 4 milljarðar króna. Það sé þó ákvörðun Bankasýslunnar.

Hugmyndir hafa verið uppi um að afhenta almenningi hlut í bankanum, allt frá 5 prósentum upp í 75 prósent. Bjarni segir að hann sé hrifinn af þeirri hugmynd að afhenta almenningi hlutina beint en fftir samtöl hafi komið í ljós að ekki nægileg samstaða var um þá leið, því verði henni ekki beitt að þessu sinni.