Álverið í Straumsvík greiddi arð upp á 130 milljónir dala til móðurfélagsins árið 2017 en upphæðin jafngildir um 13,9 milljörðum króna miðað við meðalgengi ársins. Í svari frá Rio Tinto á Íslandi kemur fram að arðgreiðslan hafi verið sú eina sem fyrirtækið hefur greitt frá árinu 2004.

„Þetta var fjármagn sem var til í fyrirtæki frá því áður en taprekstur jókst vegna hás raforkukostnaðar og krefjandi markaðsaðstæðna. Arðgreiðslan fór fram vegna þess að fyrir lá bindandi kauptilboð frá Hydro um að kaupa ISAL en fyrirtæki eru jafnan ekki seld með lausafé,“ segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi. Þetta kemur fram í umfjöllun Markaðarins um stöðu íslenskrar stóriðju.

Hydro gerði skuldbindandi tilboð um kaup á öllu útgefnu hlutafé í álverinu í febrúar 2018 og í kjölfarið sagði Ole Sæter, yfirmaður álvera Hydro, þegar hann var spurður af blaðamönnum, að samningurinn við Landsvirkjun væri samkeppnishæfur.

Norski álframleiðandinn Norsk Hydro hætti sem kunnugt er við kaupin á álverinu í Straumsvík haustið 2018 en félagið sagði við það tilefni að tekið hefði lengi tíma en búist var við að fá samþykki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir kaupunum.

Eftir að Norsk Hydro hætti við kaupin var álverið aftur sett í söluferli og greindu erlendir miðlar frá því að Glencore, einn af stærstu eigendum Norðuráls, og hið þýska Trimet Aluminium, hefðu áhuga á að kaupa álverið. Rannveig sagði nýlega í samtali við mbl.is að því söluferli væri lokið: „Nú er ekki verið að vinna í sölumálum, heldur verið að ræða við aðila hérlendis um hvort eigi að halda þessum rekstri áfram.“

Fjallað var um mögulega sölu á álverinu í Straumsvík á Aluminium Insider síðasta sumar sem taldi álverið vera heppilega fjárfestingu.

„Þrátt fyrir að ISAL greiði hæsta raforkuverðið á meðal íslenskra álvera er það enn með því lægsta sem finnst í Evrópu. Ísland framleiðir alla sína raforku með vatnsafli og jarðvarma sem er í samræmi við stefnu Rio Tinto um „grænt ál“. En að því gefnu að raforkuverðið sé mun hærra í Straumsvík en hjá álverum Rio Tinto í Kanada, þá er er ákvörðunin um að losa sig við álverið í samræmi við stefnu Rio um að draga úr kostnaði og hámarka arðsemi,“ skrifaði greinandi Aluminium Insider.