Controlant er leiðandi í þróun á vöktunarlausnum á sviði aðfangakeðjunnar (e. Supply Chain). Lausnir Controlant stuðla að öruggum, skilvirkum og rekjanlegum flutningi viðkvæmra lyfja og matvæla með sjálfbærni og lágmörkun sóunar að leiðarljósi. Til þess að styðja við öran vöxt Controlant síðastliðin ár hefur fyrirtækið markvisst ráðið starfsfólk þvert á svið fyrirtækisins, bæði hér á landi og erlendis.

Áslaug, Jens, Ragnhildur og Sæunn nýir lykilstjórnendur hjá Controlant

Síðustu mánuði hefur Controlant kynnt til leiks fjóra nýja lykilstjórnendur (e. Vice Presidents). Þetta eru þau Áslaug S. Hafsteinsdóttir, Jens Bjarnason, Ragnhildur Ágústsdóttir og Sæunn Björk Þorkelsdóttir.

Áslaug S. Hafsteinsdóttir, forstöðumaður innleiðingasviðs (Vice President of Implementation).

Áslaug mun byggja upp og leiða nýtt svið innan Controlant sem heldur utan um innleiðingar á lausnum hjá viðskiptavinum Controlant. Áður en Áslaug gekk til liðs við Controlant starfaði hún hjá Meniga í tíu ár við innleiðingu á hugbúnaði hjá alþjóðlegum fjármálastofnunum. Nú síðast starfaði hún[BÓ4] sem forstöðumaður fjártækniþjónustu og leiddi þar áður verkefnastýringu Meniga. Þá starfaði Áslaug í hátt í 7 ár hjá Landsbankanum, meðal annars sem forstöðumaður áhættugreiningar. Áslaug er með MBA og B.Sc. gráðu í verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Jens Bjarnason, forstöðumaður vöruþróunar (Chief Engineer).

Jens er nýr yfirverkfræðingur hjá Controlant og leiðir hóp sérfræðinga sem spila lykilhlutverk í þróun á vöru- og lausnaframboði félagsins. Jens er kemur með mikla reynslu í farteskinu m.a. frá Marel þar sem hann starfaði í 26 ár. Jens hóf feril sinn hjá Marel sem forritari í hugbúnaðarþróun og varð síðar sölustjóri hugbúnaðar og loks yfirmaður Innova, hugbúnaðar Marel. Jens er með MBA gráðu og B.Sc. í tölvunarfræði og iðnrekstrarfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Ragnhildur Ágústsdóttir, forstöðumaður markaðssviðs (Vice President of Marketing).

Ragnhildur mun byggja upp og leiða markaðsmál Controlant. Ragnhildur er reyndur frumkvöðull og stjórnandi. Hún er annar stofnanda Lava Show í Vík í Mýrdal sem hlaut nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar 2021. Síðastliðin sex ár starfaði hún sem sölustjóri skrifstofu- og öryggislausna hjá Microsoft í Danmörku og á Íslandi og þar áður sem forstöðumaður Hýsingar og Reksturs hjá Advania. Þá var Ragnhildur stjórnandi á fjarskiptamarkaði um 5 ára skeið áður en hún starfaði sem stjórnendaráðgjafi hjá Expectus. Ragnhildur er með meistaragráðu í stefnumótun og stjórnun frá Copenhagen Business School og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Sæunn Björk Þorkelsdóttir, forstöðumaður innkaupastýringar (Vice President of Procurement).

Sæunn tók við stjórnendastöðu í innkaupum hjá Controlant í upphafi árs 2021 og leiðir nú nýtt innkaupasvið félagsins. Áður starfaði Sæunn sem forstöðumaður innkaupastýringar og kostnaðareftirlits hjá Eimskip í fjögur ár ásamt því að sinna ýmsum öðrum ábyrgðarverkefnum, m.a. að leiða þróun nýrrar einingar á alþjóðavísu, stýra innflutningadeild félagsins í Hamborg og gegna stöðu ferlastjóra á Íslandi. Um árabil kenndi Sæunn flutningafræði og vörustjórnun við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Ásamt þessu er Sæunn einnig formaður Innkaupa- og vörustýringarhóps Stjórnvísi. Sæunn er með meistaragráðu í alþjóðastjórnun frá Stratchclyde University í Glasgow og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Bjart framundan hjá Controlant

Controlant hefur leikið lykilhlutverk í öruggri dreifingu og vöktun á COVID-19 bóluefni Pfizer og BioNTech um allan heim og m.a. unnið náið með bandaríska ríkinu hvað það varðar. Það risavaxna verkefni vakti verðskuldaða athygli á lausnum Controlant og var einn af lykilþáttum þess að Pfizer hlaut á dögunum hin eftirsóttu Gartner verðlaun fyrir bestu aðfangakeðju ársins í dreifingu á COVID-19 bóluefni sínu. Því er búist við frekari vexti á komandi mánuðum og árum.