Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að miklar líkur séu á því að fjölgun starfa verði að stórum hluta mætt með aðfluttu vinnuafli.

Samtök atvinnulífsins kynntu á dögunum niðurstöður könnunar sem náði til stjórnenda fjögur hundruð stærstu fyrirtækja landsins og var gerð um mánaðamót nóvember og desember 2021. Þar kom meðal annars fram að áætlað sé að starfsfólki fyrirtækja í heild fjölgi um 1,7 prósent á næstu sex mánuðum.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.

„Ef vinnuaflseftirspurnin er brotin niður í atvinnugreinar þá er fjölgunin ekki síst mikil í mannvirkja- og ferðaþjónustugreinum og þjónustugreinum almennt,“ segir Jón Bjarki og bætir við að þetta hafi verið þær greinar sem hafi verið í gegnum tíðina mannaðar með aðfluttu vinnuafli.Hann bætir einnig við að eftir því sem okkur fjölgi sé eðlilegt að störfum muni fjölga.

„Til að halda í við mannfjöldaþróun þarf störfum að fjölga um góð 2.000 á ári til að halda hlutfallinu stöðugu. Í stórum dráttum þá eru þessar niðurstöður í ágætis samræmi við það að ástandið sé að batna.Við sjáum það fyrir okkur að það muni áfram lækka jafnt og þétt og í lok árs verðum við komin með fulla atvinnu sem er einhvers staðar á bilinu 3-4 prósenta atvinnuleysi.“

Jón Bjarki segir jafnframt að mörg fyrirtæki virðist eiga í erfiðleikum með að fá starfsfólk til starfa.

„Útlitið er óvissara því fyrirtækin eiga sum hver erfitt með að finna fólk til starfa þó að atvinnuleysi mælist nú 4,9 prósent. Þetta er þróun sem er sambærileg því sem hefur átt sér stað í öðrum löndum eins og víða í Evrópu og í Bandaríkjunum."