Samtals hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekið á móti 1.086 umsóknum síðan opnað var fyrir umsóknir um hlutdeildarlán í nóvember 2020 en fjöldi umsókna í fyrra var 146 og voru 67 þeirra samþykktar.

Hlutdeildarlán eru ætluð til að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði. Þeim er ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup, en lánað er fyrir allt að 30 prósentum fyrir útborgun. Lántaki þarf að reiða fram að minnsta kosti fimm prósent kaupverðs sjálfur.

Samtals hafa verið keyptar 452 fasteignir með aðstoð hlutdeildarlána og nemur verðmæti þessara eigna tæplega 18 milljörðum. Fjárhæð hlutdeildarlána nemur 3,7 milljörðum. Af þessum tölum má sjá að meðalverð eigna sem keyptar hafa verið með aðstoð hlutdeildarlána er um 39,8 milljónir og meðalhlutdeildarlánið nemur 8,2 milljónum.

Ljóst er að mjög fáar eignir á höfuðborgarsvæðinu falla í þennan verðflokk. Nú þegar hafa tólf hlutdeildarlán verið endurgreidd að fullu. Þar af eru fimm þeirra vegna eigna á Selfossi, tveggja á höfuðborgarsvæðinu og tveggja á Akureyri. Heildaruppgreiðslufjárhæðin er 27 milljónum hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Að meðaltali hafa eignir hækkað um 32 prósent frá því að viðskiptavinur kaupir þar til hann greiðir upp lánið.