Fjöldi fjárfesta, einkum erlendir sjóðir sem sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðafyrirtækjum, eru nú að kanna möguleg kaup á Mílu, dótturfélagi Símans, en frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum í fyrirtækið er til loka þessa mánaðar.

Á meðal þeirra, samkvæmt heimildum Markaðarins, er breska félagið Ancala Partners, sem keypti helmingshlut í HS Orku á árinu 2019 fyrir um 35 milljarða, franski fjárfestingasjóðurinn Ardian og rekstrarfélagið Summa sem skoðar nú að fjármagna nýjan innviðasjóð til að gera tilboð í Mílu í samfloti með íslenskum lífeyrissjóðum.

Fulltrúar Ardian, sem er með innviðaeignir í stýringu að fjárhæð um 16 milljarðar Bandaríkjadala, eiga fund með forsvarsmönnum íslenskra lífeyrissjóða á morgun, fimmtudag, meðal annars í þeim tilgangi að kanna mögulegt samstarf vegna fjárfestingarinnar. Þá hafa ráðgjafar Ancala sett sig í samband við stjórnendur sumra lífeyrissjóðanna hér á landi af sama tilefni.

Verði af sölu á Mílu, sem ætti að skýrast snemma á haustmánuðum, yrði um að ræða afar stór viðskipti. Viðmælendur Markaðarins, sem greina nú þær upplýsingar sem fjárfestar og ráðgjafar þeirra fengu eftir að hafa undirgengist ströng skilyrði um trúnað á meðan á söluferlinu stendur, segja hins vegar erfitt að leggja nákvæmt mat á virði félagsins á þessu stigi og meðal annars þurfi að liggja fyrir betri upplýsingar um hvað sé raunhæft að Míla geti skilað í rekstrarhagnað á komandi árum.

Ekki er þó talið ólíklegt að EBITDA-margfaldarinn við sölu á Mílu sé á bilinu 12 til 15 sem þýðir að óbreyttu að heildarvirði félagsins – EBITDA þessa árs er áætluð 5.150 milljónir – geti verið um 60 til 80 milljarðar króna. Markaðsvirði Símans í dag er um 84 milljarðar.

Hugmyndir um að selja Mílu hafa lengi verið í burðarliðnum en í lok apríl var tilkynnt um að Síminn hefði fengið Lazard og Íslandsbanka til að veita sér ráðgjöf um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika félagsins, meðal annars er varðar framtíðar eignarhald