Ákveðið hefur verið að rúmlega þrefalda framleiðslu á astaxanthíni hjá líftæknifyrirtækinu Algalíf í Reykjanesbæ með því að stækka verksmiðju fyrirtækisins um rúmlega helming. Hafist verður handa strax í upphafi næsta árs og rúmlega 100 störf munu skapast á framkvæmdatímanum fram til 2022.

Byggðir verða um 7.000 m² og húsnæðið fer því úr 5.500 m² í um 12.500 m². Ársframleiðslan fer úr rúmum 1.500 kílógrömm af hreinu astaxanthíni í rúm 5.000 kílógrömm.

Erlend fjárfesting vegna verkefnisins nemur um fjórum milljörðum króna. „Ársveltan mun nærri fjórfaldast eftir stækkun og fara úr einum og hálfum milljarði króna í um fimm og hálfan milljarð“ segir Orri Björnsson, forstjóri Algalífs í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Framleiðsla Algalífs á örþörungum fer fram í stýrðu umhverfi innanhúss með umhverfisvænum orkugjöfum. Úr þörungunum er unnið fæðubótarefnið astaxantín.

„Öll framleiðsla þessa árs er löngu seld og bróðurpartur framleiðslu næsta árs líka. Markaðshorfur eru mjög góðar og fjögurra milljarða erlend fjárfesting sýnir trú á því sem við erum að gera“ segir Orri.

Náttúrlegt astaxanthin frá Algalíf er alþjóðlega vottað af Non-GMO Project.