Lögmannsstofan Fjeldsted & Blöndal slf. vinnur nú að undirbúningi þess að hefja starfsemi í Bretlandi og hefur nýlega gengið frá stofnun félagsins Fjeldco ltd. þar í landi. Sá sem mun stýra skrifstofu félagsins í London, samkvæmt heimildum Markaðarins, verður hæstaréttarlögmaðurinn Gunnar Þór Þórarinsson, fyrrverandi meðeigandi hjá lögmannsstofunni LOGOS.

Gunnar, sem er stjórnarformaður Gamla Byrs og starfaði áður á skrifstofu LOGOS í London til margra ára, hefur meðal annars unnið mikið fyrir þá alþjóðlegu fjárfestingarsjóði sem voru stærstu kröfuhafar föllnu bankanna.

Hagnaður lögmannsstofunnar, sem gengur iðulega undir nafninu Fjeldco, nam rúmlega 114 milljónum króna á árinu 2018 og minnkaði um fimm milljónir á milli ára. Eigendum stofunnar fækkaði hins vegar á árinu um einn – úr fjórum í þrjá – og nam hagnaður á hvern eiganda vegna afkomu síðasta árs því um 38 milljónum króna. Hluthafar félagsins eru Halldór Karl Halldórsson, sem er jafnframt framkvæmdastjóri Fjeldsted & Blöndal, Hafliði K. Lárusson og Þórir Júlíusson.

Rekstrartekjur stofunnar voru samtals 369 milljónir í fyrra og héldust nánast óbreyttar á milli ára. Laun og annar starfsmannakostnaður jókst lítillega á milli ára og var samtals 135 milljónir króna. Stöðugildi á lögmannsstofunni voru að meðaltali ellefu talsins á liðnu ári.

Eignir Fjeldco námu 267 milljónum króna í árslok 2018 og var eigið fé félagsins um 137 milljónir.