Sala á kyn­lífs­leik­föngum hjá versluninni Losti.is hefur aukist gríðar­lega að undan­förnu síðustu daga í kjöl­far sam­komu­banns stjórn­valda. Eva Brá Önnu­dóttir, einn eig­enda, segir að verslunin hafi vart undan við að anna eftir­spurn eftir ýmsum tækjum og tólum sem tengjast ástar­lífinu.

„Þetta sam­komu­bann er aug­ljós­lega að hafa góð á­hrif á kyn­löngun landans!“ segir Eva Brá létt í bragði í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún vakti í alla nótt við að pakka saman vörum til að senda til kaup­enda og var því eðli­lega þreytt eftir anna­sama nótt.

Saga Iluvia Sigurðar­dóttir, Bára Lind Þórarins­dóttir, Eva Brá Önnu­dóttir og Helena Helga Berg­mann Baldurs­dóttir opnuðu Losta í nóvember.
Fréttablaðið/Ernir

Fjarstýringar með tveggja metra drægni

„Það hefur aldrei verið jafn­mikið að gera hjá okkur,“ segir hún. Að­spurð hvort að við­skipta­vinir séu að leita eftir ein­hverju á­kveðnu segir Eva að það sé mjög fjöl­breytt. Þó séu sér­stök gjafa­sett, sem inni­haldi nokkrar vöru­tegundir, lang­vin­sælust.

„Fólk er að panta allt mögu­legt en við skelltum í til­boð til að gleðja fólk á þessum tímum, á nýjum gjafa­settum sem inni­halda sex vörur hvert og eru mjög hentug fyrir pör, þau hafa verið að rjúka út og síðan finnst okkur skemmti­legast af öllu hvað aukningin í fjar­stýrðum tækjum er mikil en við bentum fólki á að þau væri hægt að nota í tveggja metra fjar­lægð,“ segir Eva.

Það þurfi því ekki að vera fyrir­staða þó fólk sé fast með makanum sínum í ein­angrun og bara annar aðilinn smitaður.

Þá bendir Eva á að lang­öruggasta kyn­lífs­at­höfnin sé sjálfs­fróun og það sjáist í vin­sældum kyn­lífs­leik­fanga eins og múffum og eggjum.

„Við höfum svo verið að í­treka fyrir fólki að það er mikil­vægt að þvo ekki bara hendurnar heldur tækin líka en spritt á alls ekki heima á kyn­líf­stækjum né kyn­færum og það er lang­best að nota hreinsi­efni sem eru sér­stak­lega gerð fyrir kyn­líf­stæki.“