Menntasprotafélagið Evolytes hefur lokið 70 milljóna króna hlutafjáraukningu, sem leidd var af Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.

Evolytes hefur þróað heildstætt námskerfi sem kennir stærðfræði á árangursríkan og skemmtilegan máta í gegnum námsleik fyrir spjaldtölvur, námsbækur og upplýsingakerfi fyrir kennara og foreldra.Vörurnar vinna saman sem ein heild í gegnum gagnadrifinn hugbúnað sem les og greinir getu barna í rauntíma og aðlagar námsefnið getustigi þeirra til að hámarka námsárangur.

Hlutafjáraukningin nýtist félaginu við markaðssetningu á Evolytes-námskerfinu á erlendum mörkuðum og hraðar þróun kerfisins.

Námskerfi Evolytes er þróað til að bæta árangur barna í stærðfræði. Á Íslandi er staðan sú að 26 prósent barna geta ekki sýnt fram á hæfilega stærðfræðikunnáttu við lok grunnskólagöngu.Mathieu Grettir Skúlason, stofnandi og framkvæmdastjóri Evolytes, segir að fjármögnunin gefi þeim tækifæri til að umbylta stærðfræðinámi barna.

„Með því að gera stærðfræðinám skemmtilegt, gagnadrifið og einstaklingsmiðað höfum við aukið námsárangur og bætt viðhorf nemenda til muna.“