Fjármálastjóri kínverska tæknirisans Huawei var handtekinn í Kanada í byrjun mánaðar og horfir nú fram á framsal til Bandaríkjanna. 

Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei og dóttir stofnanda fyrirtækisins, var handtekin í Vancouver 1. desember. Er talið að handtakan tengist rannsókn bandarískra yfirvalda á því hvort að fyrirtækið hafi farið á svig við viðskiptaþvinganirnar sem settar voru á Íran. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Bandaríkin, Ástralía og Nýja Sjáland hafa lagt bann við notkun á búnaði frá Huawei í nýjum 5G fjarskiptainnviðum.

Wangzhou var handtekin á viðkvæmum tímapunkti. Eins og greint var frá um helgina komust leiðtogar Kína og Bandaríkjanna, þeir Donald Trump og Xi Jinping, að samkomulagi um að fresta því að setja nýja viðskiptatolla í 90 daga.