Fjár­mála­vísi­tölur í Banda­ríkjunum hrundu í dag í ljósi ótta um að von sé á annarri bylgju kóróna­veirunnar en Seðla­banki Banda­ríkjanna gaf það út í gær að Banda­ríkin ættu langa veg­ferð fyrir höndum þegar kæmi að upp­byggingu efna­hagsins. Banka­stjóri Seðla­banka Banda­ríkjanna sagði fram­tíð efna­hagsins vera mjög ó­vissa.

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið féll Dow Jones-vísi­talan um sjö prósent, S&P 500 vísi­talan féll um sex prósent, og Nas­daq-vísi­talan féll um rúm fimm prósent. Vísi­tölurnar hafa ekki verið lægri frá því um miðjan mars þegar óttinn um á­hrif CO­VID-19 á efna­haginn var sem verstur.

Tölurnar voru þó ekki aðeins slæmar í Bandaríkjunum heldur hrundu vísitölur sömuleiðis í Japan, Hong Kong, Kína, Þýskalandi og Frakklandi.

Stendur ekki til að loka efnahaginum á ný

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá John Hop­kins há­skólanum eru stað­fest smit í Banda­ríkjunum nú komin yfir tvær milljónir og hafa tæp­lega 114 þúsund manns látist af völdum sjúk­dómsins sem veiran veldur. Aukning stað­festra til­fella hefur leitt til þess að fólk óttist að opna á ný eftir lokanir.

Ste­ven Mnuchin, fjár­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna, sagði að þrátt fyrir aukninguna væri það ekki á borðinu að loka efna­hagnum á ný eins og gert var við upp­haf far­aldursins. Þess í stað myndu yfir­völd leggja til rúm­lega billjón dollara inn­spýtingu í efna­hags­lífið.

„Ég held að við höfum lært að ef þú lokar fyrir efna­haginn þá mun það bara valda meiri skemmdum, og ekki að­eins efna­hags­legum skemmdum heldur einnig á öðrum stöðum,“ sagði Mnuchin í við­tali við CNBS.

Býst við góðu gengi

Þrátt fyrir að Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hafi greint frá því í síðustu viku að at­vinnu­leysi færi minnkandi í Banda­ríkjunum segir at­vinnu­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna að fjöldi fólks sem sótti um at­vinnu­leysis­bætur hafi fjölgað um 1,5 milljónir í síðustu viku og að rúm­lega 30 milljónir manns væru enn á bætum.

At­vinnu­mála­ráðu­neytið gaf það einnig út að það væru mögu­legt að at­vinnu­leysi yrði yfir níu prósent í lok árs, svipað og þegar fjár­mála­kreppan var á sínu versta stigi. Donald Trump sagði þó ráðu­neytið oft hafa rangt fyrir sér og sagðist búast við góðu gengi það sem eftir er árs og að árið 2021 yrði meðal bestu ára í sögu Banda­ríkjanna.