Fjárfestar tóku ellefu skortstöður í skráðum félögum í síðasta mánuði sem tilkynna þurfti til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Engin þeirra fór þó yfir 0,5 prósent af hlutafé félags þannig að upplýsa þurfti um þær opinberlega.

Þetta kemur fram í svari fjármálaeftirlits bankans við fyrirspurn Markaðarins.

Til samanburðar bárust eftirlitinu níu skortstöðutilkynningar í janúar og þrjár í febrúar. Alls tók eftirlitið á móti 116 slíkum tilkynningum í fimmtán félögum á öllu síðasta ári og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.

Tekið skal fram að fleiri en ein tilkynning getur tilheyrt sömu stöðunni þar sem tilkynna þarf um allar breytingar á stöðu sem nema meira en 0,1 prósenti af hlutafé skortselds félags.

Samkvæmt Evrópureglugerð sem tók gildi hér á landi sumarið 2017 þarf að tilkynna fjármálaeftirlitinu um skortstöðu í hlutabréfum þegar hún fer yfir eða fellur undir viðmiðunarmörk sem nema 0,2 prósentum af útgefnu hlutafé félags. Því til viðbótar þarf að láta eftirlitið vita í hvert sinni sem skortstaðan eykst um 0,1 prósentustig umfram fyrrgreind 0,2 prósenta mörk.

Fari skortstaðan hins vegar yfir 0,5 prósent af hlutafé félags verður að upplýsa um það opinberlega. Ekki hefur verið upplýst um neina slíka skortstöðu frá sumrinu 2017.

Skortstöðutilkynningarnar voru hvað flestar í mars í fyrra, 21 talsins, en miklar sveiflur einkenndu þá hlutabréfamarkaðinn vegna fregna af björgunartilraunum WOW air sem fór í gjaldþrot undir lok mánaðarins.

Þá var talsvert um slíkar tilkynningar síðasta haust en fjármálaeftirlitinu bárust alls fjórtán skortstöðutilkynningar í september og fjórtán í október.