Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur til skoðunar ákvarðanatöku lífeyrissjóða í tengslum við útboð Icelandair Group. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri greindi frá því á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun.

Seðlabankinn sagði í Markaðnum í dag að ekki væri gefið upp hvort fjármálaeftirlit bankans muni taka til skoðunar hvort ákvörðun stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna um þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair Group hafi verið í samræmi við þau viðmið sem fjármálaeftirlitið setur sjóðnum.

Ásgeir sagði á fundi fjármálastöðugleikanefndar að útboð Icelandair Group gefi tilefni til umhugsunar þegar komi að ákvörðunum um einstakar fjárfestingar lífeyrisjóða.

Ekkert nýtt

„Það er ekkert nýtt,“ sagði hann og rifjaði upp að Fjármálaeftirlitið hafi síðastliðið sumar, áður en stofnunin sameinaðist Seðlabankanum, haft áhyggjur af því að samþykktir lífeyrissjóðanna „uppfylltu ekki nægilegra ströng skilyrði til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna og sendi bréf þess efnis. Þetta hefur verið ítrekað núna, að sjóðirnir endurskoði samþykktir til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna.“

Seðalbankastjóri sagði að stjórnir lífeyrissjóða séu skipaðar af hagmunaaðilum sem taki ákvarðanir um fjárfestingar sem að „mínu viti ættu að vera teknar annars staðar en af þessum aðilum.“

Að hans mati sé eðlilegt að stjórn­ir ákv­arði fjár­fest­inga­stefnu og hafi skoðun á hverju sjóðirn­ir eigi að fjár­festa í. Þegar komi að ein­stök­um fjár­fest­inga­kost­um sé hætta á að aðrir hags­mun­ir en hags­mun­ir sjóðsfé­laga ráði för­. Líf­eyr­is­sjóðakerfið hafi verið byggt upp á heiðurs­manna­sam­komu­lagi á milli aðila vinnu­markaðar­ins. Það megi velta fyrir sér hvort það haldi.

Ásgeir sagði að í lífskjarasamningunum, sem séu í gildi, hafi verið gert ráð fyrir að lagaumgjörð lífeyrisjóða yrði endurskoðuð. „Það er tilefni til þess,“ segir seðlabankastjóri.

Fréttablaðið/Anton Brink

Skiptist í tvö horn

Tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í hlutafjárútboði Icelandair Group féll á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn. Stjórnarmennirnir sem kusu gegn tillögunni voru allir tilnefndir í stjórn af VR.

Stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingu 17. júlí síðastliðinn vegna málefna Icelandair. Þar var þeim tilmælum beint til stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn lífeyrissjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hefði staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR,
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þá sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Fréttablaðið sama dag að stjórnarmönnum VR í sjóðnum, sem ekki færu eftir tilmælunum, yrði skipt út. Tilmælin voru dregin til baka af stjórn VR eftir harða gagnrýni.

Erfið staða

Seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið í lok júlí að mikilvægt væri að lífeyrissjóðirnir, stærstu hluthafar Icelandair Group, tækju upplýsta og sjálfstæða ákvörðun án tillits til utanaðkomandi skoðana. Ljóst væri þó að tilmæli stjórnar VR hefðu sett þá stjórnarmenn LIVE sem voru tilnefndir af stéttarfélaginu í mjög erfiða stöðu.