Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands mun þurfa að taka afstöðu til þess hvort tilgreina þurfi samstæðu TM sem fjármálasamsteypu eftir kaup fyrirtækisins á Lykli. TM yrði eina íslenska fjármálasamsteypan ef svo færi.

Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að tilgreina fyrirtæki, sem starfa bæði á sviði fjármála og vátrygginga, og uppfylla ákveðin skilyrði um mikilvægi og umfang, sem fjármálasamsteypur. Samsteypur af þeim toga þurfa að fylgja strangari kröfum um fjárhag og eftirlit heldur en hefðbundin fjármálafyrirtæki.

TM bíður nú eftir starfsleyfi fyrir dótturfélagið TM tryggingar, svo að unnt sé að færa vátryggingastofninn í sérfélag. Að því loknu verður TM eignarhaldsfélag með tvö dótturfélög, hvort fyrir sinn hluta starfseminnar, það er að segja TM tryggingar fyrir vátryggingar og Lykil fyrir fjármögnun. Þegar því er lokið mun fjármálaeftirlitið taka til skoðunar hvort tilgreina beri TM-samstæðuna sem fjármálasamsteypu, eftir því sem Markaðurinn kemst næst.

Á síðustu árum hafa komið upp mál þar sem fjármálaeftirlitið hefur þurft að taka afstöðu. Eftir að VÍS eignaðist virkan eignarhlut í Kviku banka árið 2017 ákvað eftirlitið að nýta lagaheimild þannig að samstæðan yrði ekki tilgreind sem fjármálasamsteypa. Ekki var talið að slík tilgreining hefði verulega hagsmuni í för með sér.

Í svari við fyrirspurn Markaðarins sagðist fjármálaeftirlitið ekki geta rætt einstök mál sem kynnu að vera til meðferðar. Hins vegar benti stofnunin á að þegar fyrirtæki í samstæðu starfa bæði á fjármálasviði og vátryggingasviði, og umsvif þeirra teljast mikilvæg, væri tekið til skoðunar hvort rétt væri að skilgreina samstæðuna sem fjármálasamsteypu.

Sem dæmi um kröfur sem gerðar eru til fjármálasamsteypa umfram önnur fjármálafyrirtæki, má nefna tilteknar fjárhagskröfur til samstæðunnar, aukið eftirlit með viðskiptum innan samsteypunnar til að kanna aukna áhættu, til dæmis vegna mögulegra smitáhrifa, og hættu á hagsmunaárekstrum. Þá eru gerðar hæfiskröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra þess félags sem fer fyrir samstæðunni og auknar kröfur til innra eftirlits og áhættustýringar samstæðunnar.