Fjárhagur Marels er langsamlega bestur á meðal evrópskra fyrirtækja sem þróa og framleiða fjárfestingarvörur (e. capital goods), samkvæmt greiningu JP Morgan. Horft var til 38 félaga sem skráð eru á hlutabréfamarkað. Fyrirtækin eiga það sameiginlegt að þróa tæki sem framleiða aðrar vörur, eins og í til dæmis fiskvinnsluvélar. Greiningin var tekin saman í ljósi þess að efnahagsumsvif hafa dregist hratt saman vegna kórónaveirunnar.

Mælikvarðinn sem miðað er við er fenginn með því að draga skammtímaskuldir frá reiðufé og ónotuðum lánalínum og það sett í hlutfall við sölu. Hlutfallið hjá Marel er í kringum 75 prósent, um 50 prósent hjá næsta fyrirtæki á eftir sem heitir Spectris, og er liðlega 45 prósent hjá Halma sem státar af þriðja sætinu. Önnur félög standa verr að vígi á þennan mælikvarða.

Samkvæmt greiningunni, sem birtist í síðustu viku og Markaðurinn hefur undir höndum, er fjárhagsstaða fyrirtækjanna almennt góð með tilliti til skuldsetningar og vanda sem kann að skapast vegna lausafjárþurrðar. Aftur á móti sé erfitt að leggja mat á áhættu sem kunni að skapast vegna viðskiptavina sem séu afar skuldsettir eða eigi í miklum vanda vegna kórónaveirunnar. Eins sé misjafnt hve þungt hægagangur í efnahagslífinu leggst á rekstur þeirra.

JP Morgan horfði til reksturs fyrirtækjanna árið 2009, sem var mörgum þungt í skauti vegna fjármálakreppunnar 2008, og komst að því að lausafjárstreymi flestra þeirra hafi þá verið jákvætt. Greinendur bankans segja að það séu góð tíðindi. Að því sögðu gæti efnahagsáfallið vegna kórónaveirunnar verið enn verra. Marel, sem var skráð í kauphöllina í Amsterdam í júní í fyrra, hefur ekki farið varhluta af áhrifum farald-ursins og hefur hlutabréfaverð félagsins lækkað um 18 prósent frá áramótum.