Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair Group, segir að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins hafi verið flókin og krefjandi. „Lokahnykkurinn var vel heppnað hlutafjárútboð þar sem félagið tryggði sér 23 milljarða króna í hlutafé og sjö þúsund nýir hluthafar bættust við hluthafahóp félagsins,“ segir hún.

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

„Árið 2020 fór vel af stað hjá Icelandair Group, rekstur félagsins var í takt við áætlanir fyrstu tvo mánuðina og útlitið fyrir árið var gott. Þá skall kórónuveirufaraldurinn á og þar með hvarf tekjugrundvöllur félagsins að miklu leyti á aðeins nokkrum vikum. Eins og önnur flugfélög neyddumst við til að draga saman seglin eins hratt og mögulegt var. Það var ljóst að við ættum mikið verk fyrir höndum að koma félaginu í gegnum erfiðar aðstæður og á sama tíma tryggja rekstrargrundvöll þess til framtíðar og verja störf. Eitt af stærstu verkefnunum í þessari vegferð var fjárhagsleg endurskipulagning félagsins sem var í senn flókin og krefjandi. Með samstilltu átaki framúrskarandi starfsfólks okkar og ráðgjafa náðum við að ljúka þessu verkefni á nokkrum mánuðum þar sem allir hagaðilar lögðu sitt af mörkum. Lokahnykkurinn var vel heppnað hlutafjárútboð þar sem félagið tryggði sér 23 milljarða króna í hlutafé og sjö þúsund nýir hluthafar bættust við hluthafahóp félagsins.“

„Lokahnykkurinn var vel heppnað hlutafjárútboð þar sem félagið tryggði sér 23 milljarða króna í hlutafé og sjö þúsund nýir hluthafar bættust við hluthafahóp félagsins.“

Hvað gekk vel á árinu 2020?

„Við erum þakklát fyrir þann mikla stuðning sem félaginu var sýndur í útboðinu. Samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu vann starfsfólk af öllum sviðum Icelandair Group þrekvirki í þjónustu við viðskiptavini í gjörbreyttu umhverfi. Þá tókst okkur með mikilli útsjónarsemi að sækja ný verkefni, til dæmis í leigu- og fraktflugi, og þar með nýta innviði og auka tekjur félagsins. Þar á meðal voru um 80 ferðir með lækningavörur frá Kína til Þýskalands, Kanada og Bandaríkjanna.

Um miðjan júní, þegar sóttvarnareglur á landamærum voru rýmkaðar, náðum við að nýta sveigjanleika leiðakerfis Icelandair og bregðast hratt við aukinni eftirspurn eftir flugi með góðum árangri. Það voru þó vonbrigði að þurfa að skella í lás aftur um miðjan ágúst þegar ástandið hóf að versna á ný.

Í öllum þeim krefjandi verkefnum sem við stóðum frammi fyrir á árinu sýndi það sig enn og aftur að styrkleikar félagsins liggja meðal annars í reynslu og þekkingu starfsfólks og ekki síst samheldni þegar á móti blæs.“

„Meginverkefni okkar verður að lágmarka rekstrarkostnað á meðan núverandi ástand varir en á sama tíma tryggja að félagið sé tilbúið að taka á loft um leið og heimurinn hefur náð betri tökum á kórónuveirunni.“

Hvernig horfir árið 2021 við þér í rekstrinum?

„Árið 2021 verður krefjandi en jafnframt spennandi ár. Meginverkefni okkar verður að lágmarka rekstrarkostnað á meðan núverandi ástand varir en á sama tíma tryggja að félagið sé tilbúið að taka á loft um leið og heimurinn hefur náð betri tökum á kórónuveirunni. Starfsfólk félagsins vinnur nú hörðum höndum að því að undirbúa viðspyrnuna sem verður vonandi fyrr en síðar á nýju ári.

Við ætlum okkur að halda áfram að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og búa til tækifæri fyrir Ísland sem tengimiðstöð í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf og lífsgæði hér á landi. Ég hef fulla trú á því að Ísland verði áfram eftirsóttur áfangastaður ferðamanna enda kjöraðstæður hér sem munu heilla í kjölfar faraldursins – víðerni, öryggi og fátt fólk. Með öfluga innviði, sveigjanlegt leiðakerfi, sterkan efnahagsreikning, breiðan hluthafahóp og síðast en ekki síst frábært starfsfólk, erum við vel í stakk búin til að takast á við það sem árið 2021 ber í skauti sér.“