Hagsjá Landsbankans fjallar í dag um opinber fjármál og varpar fram þeirri spurningu hvort boðað fjárfestingar- og uppbyggingarátak stjórnvalda, sem ýtt var úr vör með fjármálaáætlun áranna 2021-2025, sé raunverulegt átak?

Meginþungi áætlunarinnar átti að vera árin 2021-2023, meðal annars til að bæta upp minni fjárfestingar atvinnuveganna, en áhrifanna átti einnig að gæta að einhverju marki árin 2024 og 2025.

Hagfræðideild Landsbankans setur fram spurninguna: Átak eða hefðbundin starfsemi?

Bent er á að í kynningum og tillögum stjórnvalda hafi fjárfestingarátakið iðulega verið blásið mikið upp. Meðal annars segir í tillögu að nýrri fjárfestingarstefnu að fjárfesting hins opinbera hafi verið aukin síðastliðin ár með sérstöku fjárfestingar- og uppbyggingarátaki til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu vegna faraldursins. Með þessari aukningu sé umfang fjárfestinga nálægt langtímameðaltali áranna 1998-2020.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var meðalhlutfall opinberrar fjárfestingar 1998-2020 3,9 prósent af vergri landsframleiðslu. Tölur Hagstofunnar um þetta ná hins vegar aftur til 1995. Sé tekið tímabilið 1995-2020 kemur í ljós að meðalhlutfall opinberrar fjárfestingar sem hlutfall vergrar landsframleiðslu var 4,2 prósent, eða nokkuð hærra en á tímabilinu sem valið er til samanburðar.

Sé horft til tímabilsins 2017-2020 var hlutfallið 3,6 prósent og 3,3 prósent 2015-2020, eða mun lægra en meðalhlutfall tímabilsins sem stjórnvöld velja til samanburðar.

Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar, sem fjárlagafrumvarp næsta árs byggir á, er áætlað að opinber fjárfesting aukist úr 3,7 prósent í 4,1 prósent af vergri landsframleiðslu, eða um tæplega 11 prósent. Næstu þrjú árin lækkar hlutfallið um 1-6 prósent árlega. Samkvæmt Hagsjánni verður hlutfallið 4,1 prósent í ár, 4 prósent á því næsta, 3,8 prósent 2023 og 3,5 prósent 2024. Að meðaltali gefur þetta opinbera fjárfestingu upp á 3,8 prósent af vergri landsframleiðslu. Miðað við langtímameðaltöl sé áhugaverð spurning hvort átak sé réttnefni yfir þessa þróun.

Samkvæmt Hagsjánni mistókst það yfirlýsta markmið stjórnvalda að aukin opinber fjárfesting kæmi móti minnkandi fjárfestingum atvinnuveganna vegna kreppueinkenna í hagkerfinu í kjölfar gjaldþrots WOW air og vegna Covid-19 faraldursins.

Þess í stað dró úr opinberum fjárfestingum þegar áföll atvinnulífsins drógu úr fjárfestingagetu þess og nú, þegar farið er að birta yfir efnahagslífinu aukist opinberar fjárfestingar í takt við aukna fjárfestingu atvinnuveganna.