Það er mikið umbreytingarskeið fram undan í íslensku efnahagslífi. Fjórða stoðin sem byggir á hugviti er loks að vaxa úr grasi og mun taka meira til sín ár frá ári. Hingað til hefur áhættufjármagn skort til þess að hugverkageirinn hafi náð að skjóta almennilegum rótum.

Á árinu 2021 urðu þau tíðindi að fimm vísisjóðir voru stofnaðir með myndarlegt fjármagn til þess að styðja við fyrirtæki sem byggja á hugviti. Samtals söfnuðu sjóðirnir yfir 40 milljörðum, mestur peningurinn kemur frá íslenskum lífeyrissjóðum en þess má geta að Evrópski fjárfestingasjóðurinn, sem er stærsti sjóður í Evrópu, fjárfesti í íslenskum sjóði í fyrsta skipti.

Þetta mikla fjármagn sem er eyrnamerkt fyrirtækjum sem byggja á hugverkum eru tímamót. Það eru nánast vikulegar fréttir af fyrirtækjum sem hafa safnað fjármagni. Að jafnaði hafa fyrirtækin safnað myndarlegum fjármunum sem gerir þeim kleift að keppa á alþjóðlegum markaði.

Fyrirtæki sem byggja á hugviti geta vaxið hratt á skömmum tíma, nýleg dæmi eru til dæmis Controlant og Kerecis.

Mikil samkeppni hefur myndast um sérhæft starfsfólk og það mun myndast þörf fyrir nýja sérfræðiþekkingu. Það eiga eftir að myndast nýjar hliðargreinar og afleidd tækifæri.

Íslenska hagkerfið hefur verið auðlindadrifið, byggst á gjöfulum miðum, orkuríkri náttúru og náttúrufegurð. Það er áríðandi að innviðir séu þannig að þessi fyrirtæki nái að blómstra. Byggja upp þekkingu, tengingar við alþjóðlegt umhverfi og skilning á þessum nýja veruleika í íslensku atvinnulífi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Brum Funding.