Ákveðnir hvatar einkaaðila til fjárfestinga í grænum eignum voru lögfestir á dögunum. Einkaaðilar munu geta lagt sérstakt álag á fjárfestingar sem flokkast sem grænar. Þetta sama álag verður svo hægt að fyrna, eða gjaldfæra, sem í reynd verkar til lækkunar á skattstofni.

Er þetta gert til að hvetja til aukinnar fjárfestingu einkaaðila og verður leyfilegt vegna eigna sem fjárfest er í á árunum 2021 til 2025.

„Frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar reið yfir hefur fjárfesting dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna. Hið opinbera hefur brugðist við slaka í fjárfestingu með auknum framlögum til opinberra framkvæmda, en skortur er á fjárfestingu af hálfu einkaaðila. Ákvæðinu sem nú hefur verið sett í lög um tekjuskatt, til bráðabirgða, er ætlað að hvetja til fjárfestinga einkaaðila sem liðar í að skapa öfluga viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum faraldursins,“ segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.

Fyrningarálagið nemur 25 prósent vegna lögaðila sem sæta 20 prósent tekjuskatti, 13,3 prósent vegna lögaðila sem sæta 37,6 prósent tekjuskatti og 13,18% vegna einstaklinga í atvinnurekstri.

Til þess að falla undir heimildina þurfa eignir að teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærri þróun eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Ívilnunin nær til fjárfestinga í grænum eignum á árunum 2021 til 2025 .

Fyrningarálagið tekur meðal annars til fjárfestinga sem snúa að vistvænum samgöngum, endurnýjalegri orku, hreinsun fráveituvatns, endurnýtingu úrgangs og umhverfisvænni stýringu á auðlindum og landnotkun.

Fyrningarálag getur einnig átt við um eignir sem falla ekki undir ofangreinda flokka en eru umhverfisvottaðar af viðurkenndum aðilum eða uppfylla að minnsta kosti tvö af eftirfarandi skilyrðum, að því er kemur fram í lögunum:

Eru með A+ eða hærri einkunn samkvæmt orkuviðmiðum Evrópusambandsins.

Eru hluti af kerfi eða starfsemi sem felst í framleiðslu á vöru sem hefur hlotið umhverfisvottun frá viðurkenndum aðilum.

Eru tilgreindar í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins og uppfylla losunarviðmið í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins.

Eru knúnar að minnsta kosti 85 prósent af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti.

Minnka rafmagnsnotkun um að minnsta kosti 30 prósent eða minnka losun loftmengunarefna um að minnsta kosti 50 prósent samanborið við hina útskiptu eign eða samanburðareign á markaði.