Fjárfestingar í dótturfélögum félags Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu, námu 1,6 milljörðum króna árið 2020 en sambærilegur liður var 250 milljónir króna árið áður. Aukningin er 1,35 milljarðar króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Riftúns.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Friðbert eignaðist bifreiðaumboðið Heklu að fullu á árinu 2020 eftir að Riftún keypti 50 prósenta hlut Semler, sem á og rekur umboð fyrir Volkswagen bifreiðar í Danmörku (Volkswagen, Audi, Porsche, SEAT og Skoda). Fyrir kaupin átti Friðbert helmings hlut í Heklu á móti Dönunum í gengum Riftún.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í apríl að af ársreikningi Semler megi ráða að hluturinn hafi verið seldur fyrir um 1,4 milljarða króna og söluhagnaðurinn hafi verið yfir hálfur milljarður króna.

Friðbert keypti helmingshlut í Heklu árið 2011 í gegnum Riftún. Við árslok 2019 voru eignir Riftúns bókfærðar á 258 milljónir króna en árið 2020 námu eignirnar 2,2 milljörðum króna.

Fastafjármunir Riftúns jukust um tvö milljarða á milli ára. Liðurinn fjárfestingar í dótturfélögum nam 1,6 milljörðum króna á árinu 2020. Sá liður var ekki í ársreikningum 2019. Á árinu 2019 voru fjárfestingar í hlutdeildarfélögum bókfærðar á 250 milljónir króna. Sá liður var ekki til staðar ári seinna og því má ætla að sú eign hafi færist yfir í fjárfestingar í dótturfélögum. Að sama skapi bættist við 620 milljónir við viðskiptavild á árinu 2020 sem var ekki til staðar á árinu 2019.

Eigið fé félagsins var 578 milljónir króna við árslok 2020 samanborið við 32 milljónir króna árið áður. Hækkunina má rekja til þess að óinnleystur hagnaður dóttur- og hlutdeildarfélaga var 553 milljónir króna á árinu.

Félagið tók 1,4 milljarða króna lán frá lánastofnunum og 235 milljón króna víkjandi lán í fyrra – sama ár og Riftún keypti helmings hlut í Heklu.

Riftún hefur veðsett eignarhluti sína í Heklu og helmings hlut sinn í Heklu fasteignum til tryggingar á skuldum við lánastofnanir.

Tekjur Heklu jukust í 14,2 milljarða króna á árinu 2020 en þær voru 12,5 milljarðar króna árið áður. Hekla hagnaðist um 63 milljónir króna árið 2020 en tapaði 17 milljónum króna árið áður. Eignir námu 3,5 milljörðum króna í fyrra og eigið fé var 1,6 milljarðar króna.

Eignir Heklu fasteigna námu 1,6 milljörðum króna í fyrra og eigið fé var neikvætt um 140 milljónir króna.

Friðbert keypti fasteignina Víðimel 29 í Vesturbær Reykjavíkur sem var um árabil í eigu kínverska sendiráðsins á árinu 2020. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo er húsið skráð á Friðbert og eiginkonu hans í eign nafni en ekki í gegnum félag.