Fjárfestingafélagið Incrementum, sem var stofnað af Kviku banka og viðskiptafélögunum Baldvini Valtýssyni, Ívari Guðjónssyni og Smára Rúnari Þorvaldssyni vorið 2019, tapaði rúmlega 146 milljónum króna í fyrra.

Félagið, sem var sett á fót með rúmlega einn milljarð króna í hlutafé, fjárfesti í verðbréfum fyrir um 3.240 milljónir króna á síðasta ári, en seldi á móti fyrir liðlega 2.270 milljónir króna. Á meðal þeirra fyrirtækja í Kauphöllinni sem Incrementum fjárfesti í voru Reitir, Kvika banki, Síminn og Marel.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi nam hlutabréfaeign félagsins um 1.020 milljónum króna í árslok 2019 og var eigið fé tæplega 870 milljónir. Hlutabréfaeign Incrementum á þeim tíma samanstóð fyrst og fremst af eignarhlut í Reitum, samtals um 10,5 milljónum hluta að nafnverði, sem var metinn á 766 milljónir króna, en frá áramótum hefur hlutabréfaverð fasteignafélagsins lækkað um nærri 40 prósent. Þá átti félagið auk þess lítinn hlut í Marel og Origo.

Fram kemur í skýringum með ársreikningi félagsins að það sé mat stjórnar að kórónaveirufaraldurinn muni hafa veruleg áhrif á rekstur Incrementum á árinu 2020. Það sé hins vegar mat stjórnenda að efnahagurinn sé sterkur og áframhaldandi rekstur tryggður. Brugðist hafi verið áhrifum verðsveiflna á mörkuðum með því að selja eignir og lækka skuldir til að bregðast við áhættu. Í lok síðasta árs námu skuldir við lánastofnanir 187 milljónum og skuldir vegna afleiðusamninga um 178 milljónum.

Félagið Kirkjustígur, sem er í eigu Baldvins, er stærsti hluthafi Incrementum með nærri 20 prósenta hlut. Þá nemur eignarhlutur Kviku banka og félags í eigu Róberts Wessman hvor um sig tæplega 15 prósentum. Aðrir helstu hluthafar Incrementum eru meðal annars Ari Guðmundsson, eigandi þvottaþjónustunnar Fannar, Ólafur Björnsson, eigandi heildsölunnar Innness, og Kristján Grétarsson, einn hluthafa Kea-hótela.