Eyja fjárfestingafélag, sem er í eigu hjónanna Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, tapaði 689 milljónum króna árið 2019. Árið áður hagnaðist félagið um 288 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi.

Eigið fé fjárfestingafélagsins var 2,3 milljarðar króna við árslok og eignir þess voru um fjórir milljarðar króna. Skuldir við tengda aðila námu 1,5 milljörðum króna.

Tap Eyju í fyrra má annars vegar rekja til að áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga drógu afkomuna niður um 334 milljónir króna. Sá liður var jákvæður um 582 milljónir árið áður. Hins vegar til þess að niðurfærðar kröfur námu um 286 milljónum króna. Sá liður var neikvæður um 150 milljónir árið áður.

Verðmætasta eign Eyju er félag sem áður hélt utan um eignarhlut hans í Domino’s á Íslandi. Dótturfélagið, Eyja fjárfestingafélag II, er bókfært á 1,4 milljarða króna í ársreikningnum.

Eyja á meðal annars í Snaps, Joe and the Juice á Íslandi, Gló og Brauð og co. Í fyrra átti félagið helmingshlut í Jómfrúnni, en seldi hlut sinn í sumar til Jakobs Einars Jakobssonar sem á nú veitingastaðinn að fullu.