Fjárfestar lögðu tvöfalt hærri fjárhæð í bandarísk sprotafyrirtæki á árinu 2021 en árið áður. Frumkvöðlar nutu góðs af því að fjárfestar kepptust um að fjármagna fyrirtækin þeirra sem gerði það að verkum að verðmiðinn hækkaði, segir í frétt Financial Times.

Óskráð bandarísk sprotafyrirtæki sem fjármögnuð eru af vísisjóðum söfnuðu 330 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra samanborið við 167 milljarða árið áður – sem þá var met. Fjárfestingin er fjórum sinnum meiri en fyrir fimm árum.

Meira en helmingur af fjárfestingunni í fyrra rann í fjármögnunarlotur sem voru yfir 100 milljónir Bandaríkjadala. Í frétt Financial Times segir að það varpi ljósi á að fjárfestar séu viljugir til að leggja ungum fyrirtækjum til háar fjárhæðir.

Alþjóðlega söfnuðu sprotafyrirtæki um 671 milljarði Bandaríkjadala sem er 90 prósent aukning á milli ára.