Sjóður í stýringu bandaríska eigna­stýringarfyrirtækisins Royce Investment Partners, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í minni fyrirtækjum, fjárfesti á fyrsta fjórðungi ársins í Marel og Össuri fyrir um einn og hálfan milljarð króna.

Um er að ræða fyrstu fjárfestingar sjóðsins, sem stýrir eignum upp á alls 670 milljónir dala, jafnvirði ríflega 92 milljarða króna, í umræddum fyrirtækjum.

Alls fer sjóðurinn, Royce International Premier Fund, með um 626 þúsund hluti í Össuri, að virði um 600 milljónir króna og ríflega 1,4 milljónir hluta í Marel sem eru metnir á einn milljarð króna.

Í bréfi sem sjóðsstjórinn, Mark Rayner, skrifaði sjóðfélögum fyrr í mánuðinum, tók hann fram að sjóðurinn hefði skoðað fjárfestingu í Össuri í fimm ár. Hlutabréf í stoðtækjaframleiðandanum hefðu orðið meira aðlaðandi eftir að þau féllu í verði í fyrri hluta marsmánaðar.