Umbreyting, sjö milljarða króna framtakssjóður í rekstri Alfa framtaks, fjárfesti fyrir samanlagt ríflega 2,8 milljarða króna í þremur fyrirtækjum á síðasta ári, samkvæmt nýlegum ársreikningi sjóðsins.

Eignarhlutur framtakssjóðsins í Greiðslumiðlun Íslands, móðurfélagi innheimtufyrirtækisins Motus, var verðmætasta eign sjóðsins í lok síðasta árs að bókfærðu virði um tæplega 1,4 milljarðar króna.

Þá var þrettán prósenta eignarhlutur Umbreytingar í Nox Health metinn á ríflega 1,2 milljarða króna í bókum framtakssjóðsins við síðustu áramót en sjóðurinn bættist sem kunnugt er í hluthafahóp lækningatækjafyrirtækisins samhliða sameiningu Nox Medical og systurfélagsins Fusion Health síðasta haust.

Auk þess var virði eignarhlutar framtakssjóðsins í Borgarplasti um 790 milljónir króna í bókum sjóðsins í lok síðasta árs og þá var eignarhlutur hans í Málmsteypu Þorgríms Jónssonar metinn á sama tíma um 350 milljónir króna. Sjóðurinn festi kaup á öllu hlutafé í síðarnefnda fyrirtækinu í desember í fyrra.

Tap varð af rekstri Umbreytingar upp á 110 milljónir króna í fyrra borið saman við 66 milljóna króna hagnað í fyrra. Framtakssjóðurinn, sem er nær óskuldsettur, átti eignir upp á alls 3,9 milljarða króna í lok ársins.

Hlutafjárloforð sjóðsins eru sjö milljarðar króna, eins og áður sagði, en í lok síðasta árs námu ódregin loforð um 3,4 milljörðum króna.

Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins eru stærstu hluthafar sjóðsins með um fimmtán prósenta hlut hvor en á meðal annarra stórra hluthafa eru Snæból, í eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, VÍS, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Silfurberg, í eigu hjónanna Friðriks Steins Kristjánssonar og Ingibjargar Jónsdóttur, og Eldhrímnir, fjárfestingafélag Ingimundar Sveinssonar og fjölskyldu.