Síminn og Sýn voru meðal vanmetnustu félaga á markaði í byrjun árs samkvæmt verðmötum Capacent. „Nú hefur gengi Símans á markaði heldur betur tekið við sér og er lítill munur á markaðsgengi og verðmatsgengis. Erfitt var að átta sig á mun á verðmatsgengi og markaðsgengi um áramótin. Stöðugleiki í rekstri og rekstrarbati höfðu einkennt rekstur Símans síðustu ár. Rekstraróvissu og óstöðugleiki hefur einkennt rekstur Sýnar undanfarið og virðast fjárfestar hafa valið Símann fram yfir Sýn. Sveiflur og óvissa fer alltaf illa í fjárfesta,“ segir í greiningu Capacent.

Verðmat Capacent á Símanum hljóðar nú upp á 46,4 milljarðar króna en eldra verðmat hljóðaði upp á 45,2 milljarða króna. Verðmatið hækkar því um rúmlega 2,5 prósent frá fyrra verðmati. Verðmatsgengi nú er 5,1 en var 5,0 við útgáfu síðasta verðmats.

Afkoma Símans á fyrri hluta árs 2019 var í samræmi við væntingar Capacent. Rekstrarhagnaður (EBIT) Símans á fyrsta árshluta 2019 nam 2,4 milljörðum króna samanborið við 2,6 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Tekjur voru lítillega hærri en Capacent reiknaði með en á móti var framlegð lítillega lægri.