Nokkrir af stærstu alþjóðlegu lánveitendum Argentínu, þar á meðal Eaton Vance og T Rowe Price, hafa rætt óformlega saman um hvernig eigi að bregðast við fyrirætlunum Mauricio Macri, forseta landsins, að fresta afborgunum af 101 milljarða dollara lánum. Telja þeir tilgangslaust að eiga í viðræðum við ríkisstjórn sem muni að öllum líkindum missa völdin í kosningum í október.

Macri vonast til þess að 50 milljarða dollara langtímalán sem er að mestu í eigu erlendra fjárfesta verði endurskipulögð. Enn fremur er vonast eftir endurskipulagningu á 44 milljarða dollara láni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitti landinu 57 milljarða dollara neyðarlán á síðasta ári. Enn fremur hefur ríkisstjórnin þegar slegið á frest að greiða sjö milljarða dollara sem hún skuldar innanlands.

Það hratt af stað efnahagsvanda þegar forkosningar fyrir forsetakosningar gáfu til kynna að Macri myndi ekki njóta nægilegs stuðnings til að sitja áfram í embætti.

Skuldabréfaeigendur ræddu saman símleiðis á þriðjudag og réðu ráðum sínum. Niðurstaðan var að ólíklegt væri að samningurinn myndi standa nema Alberto Fernández sem líklegur er til að taka við sem forseti sé samþykkur honum.

Auk þess hefur ríkisstjórnin ekki enn rétt fram tillögu að breytingum á láninu. Skuldabréfaeigendur telja því órökrétt að hefja viðræður að svo stöddu eða koma á fót formlegri samninganefnd og ráða lögmenn.

Enn fremur telja skuldabréfaeigendur það vera skammgóðan vermi að fresta greiðslu á skammtímaláni um sex mánuði.