Virði kínverskra hlutabréfa og skuldabréfa í eigu erlendra fjárfesta hefur aukist um 40 prósent í ríflega 800 milljarða Bandaríkjadala það sem af er ári. Alþjóðlegir fjárfestar hafa aldrei bætt jafn hratt við sig slíkum eignum þrátt þrátt fyrir að slest hafi upp á vinskapinn á milli Beijing og alþjóðasamfélagsins. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Á meðal þess sem skapað hefur spennuna er að bandarísk stjórnvöld hafa gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að endurskoðun ársreikninga í Kína og kúgun á múslimum í borginni Uighurs sem Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur kallað þjóðarmorð.

Á sama tíma hafa kínversk stjórnvöld skikkað kínversk fyrirtæki sem hafa upplýsingar um yfir milljón notendur til að standast öryggispróf áður hlutabréf þeirra eru skráð í erlendar kauphallir.

Erlendir fjárfestar hafa keypt kínversk hlutabréf fyrir um 35,3 milljarða Bandaríkjadala nettó það sem af er ári. Það er 49 prósent aukning á milli ára, samkvæmt athugun Financial Times.

Þeir hafa einnig keypt yfir 75 milljarða dala af ríkisskuldum sem er um 50 prósent aukning á milli ára.

Áhuga erlendra fjárfesta á Kína má rekja til þess hve hratt hagkerfið hefur tekið við sér eftir Covid-19 heimsfaraldurinn en nú hafa vaknað áhyggjur af því að hægja fari á efnahagsbatanum.

Aukið innflæði má meðal annars rekja til þess að eignirnar eru hluti af alþjóðlegum vísitölum fyrir verðbréf. Í mars ákvað FTSE Russell að bæta kínverskum ríkisskuldabréfum við í alþjóðlega skuldabréfavísitölu sína. Greinendur Nomura reikna með því að það muni leiða til þess að 130 milljarðar dala verði fjárfest í Kína.

Fjárfestar horfa ekki í jafn ríku mæli til þess að fjárfesta í tæknifyrirtækjum og áður. Kínverski markaðurinn hefur notið góðs af því. Greinendur segja að kínverski markaðurinn bjóði upp á fjárfestar geti fjárfest í annars konar fyrirtækjum, eins og iðnaðarsamsteypum. Eins sé betra að fjárfesta í kínverskum fyrirtækjum í Kína en ekki í gegnum aðrar kauphallir því stjórnvöld kunni að reynast þeim Þrándur í Götu. Að sama skapi sé ávöxtun kínverskra ríkisskulda 1,5 prósentustigum betri en bandarískra.