Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Miðvikudagur 2. desember 2020
06.00 GMT

Vaxtalækkanir Seðlabankans hafa og munu stuðla að meiri hækkunum á hlutabréfaverði en það að bóluefnið gegn COVID-19 sé á næsta leyti. Þetta segir Snorri Jakobsson, framkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital. „Stýrivaxtalækkanir hafa leitt til mikilla hækkana á hlutabréfamarkaði.“

Mogens Gunnar Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, segist bjartsýnn á áframhaldandi hækkanir á hlutabréfamarkaði á næstu misserum. „Vextir eru orðnir lágir hér á landi og til lengri tíma munu þeir haldast lægri en áður hefur þekkst.“

Hann bendir á að þetta muni hafa í för með sér að fjármunir leiti úr áhættuminni eignum eins og ríkisskuldabréfum yfir í hlutabréf. „Þessi tilfærsla hófst í lok síðasta árs eftir að vextir tóku að lækka um mitt ár 2019. Við fundum fyrir miklu innflæði í hlutabréfasjóði okkar á þessu tímabili en í fyrstu COVID-bylgjunni hægði á þeirri þróun. Það var eðlilegt í ljósi þeirrar óvissu sem skapaðist í hagkerfinu meðal annars tengt framtíð Icelandair en þá var ljóst að fram undan væri stórt hlutafjárútboð hjá félaginu.“

Innflæði stuðli að hækkunum

Mogens Gunnar telur að aukið innflæði á hlutabréfamarkaðinn muni stuðla að hækkunum. „Við teljum að töluverðir fjármunir muni leita inn á markaðinn vegna þess hve vextir eru lágir og verðlagning víða hagstæð.“

Innlán heimila fara stigvaxandi.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hlutabréfa og blandaðra sjóða hjá Stefni, segir að fréttir af bóluefnunum þremur gegn COVID-19 hafi staðfest „að ljósið við enda ganganna er ekki lest á móti okkur“ heldur bjargvættur. Bóluefni skipti sköpum fyrir efnahag Íslands enda sé ferðaþjónusta umsvifamikill atvinnuvegur. „Nú höfum við fast land undir fótum og getum farið að hugsa fram í tímann,“ segir hann.

Mogens Gunnar segir margar skýringar á sterkum hlutabréfamarkaði síðan í haust. Góðar fréttir af bóluefni skipti þar verulegu máli, vel heppnað hlutafjárútboð Ice­land­air og almennt góður gangur í rekstri félaga á markaði, ekki síst vegna sterkrar einkaneyslu, hafi glætt markaðinn miklu lífi. Þessi tíðindi ásamt lágum vöxtum geri það að verkum að fjárfestar og sparifjáreigendur færi fé úr innlánum og skuldabréfum í hlutabréf. Í hlutafjárútboði Icelandair hafi sjö þúsund nýir hluthafar bæst í eigendahópinn og hlutabréfin hafa hækkað um 40 prósent frá þeim tíma.

„Ekki er ólíklegt að hlutafjárútboð Icelandair hafi endurvakið áhuga margra einstaklinga á hlutabréfamarkaðnum,“ segir hann.


„Ekki er ólíklegt að hlutafjárútboð Icelandair hafi endurvakið áhuga margra einstaklinga á hlutabréfamarkaðnum.“


Að hans sögn hefur verið töluvert innflæði á hlutabréfamarkaðinn, sérstaklega í október og nóvember. Birtingarmynd þess sé meðal annars að hlutabréfasjóðir Íslandssjóða hafi vaxið um tæp 40 prósent frá áramótum.

Horft í gegnum faraldurinn

Magnús Örn segir að fjárfestar hérlendis og erlendis hafi horft í gegnum kórónaveirufaraldurinn. Verðmat fyrirtækja byggi enda á spá um sjóðstreymi til fjölda ára en ekki skamms tíma. „Margir reikna með því að bóluefnið verði komið í víðtæka dreifingu á fyrri hluta næsta árs og því er hægt að leiða hugann að því hvernig fyrirtækin standa þegar veiran hefur verið kveðin niður.“

Sveinn Þórarinsson, hlutabréfagreinandi hjá Landsbankanum, segir að fjárfestar „horfir í gegnum“ COVID-19. Þess vegna muni hlutabréfamarkaðurinn ekki taka við sér á sama tíma og hagkerfið. Þegar verði búið að verðleggja þær hækkanir að einhverju leyti inn í hlutabréfaverðið.

Síminn hefur hækkað um 42 prósent frá áramótum.

Hann vekur athygli á að flest skráð fyrirtæki á markaði hafi hækkað frá áramótum þrátt fyrir þá erfiðleika sem veiran skapi fyrirtækjum. Fjárfestar séu enda á höttunum á eftir betri ávöxtun í lágvaxta­umhverfi. Það hjálpi að flest skráð fyrirtæki í Kauphöll hafi orðið fyrir vægum áhrifum af COVID-19 fyrir utan Icelandair og fasteignafélögin. Uppgjör á öðrum og þriðja ársfjórðungi hafi til að mynda verið fín. Að því sögðu spái Landsbankinn því að hagnaður fyrirtækja í Kauphöllinni verði um 30 prósentum minni í ár en í fyrra.

Hagstætt verðlagður

Magnús Örn telur að hlutabréfamarkaðurinn eigi eftir að þokast upp á við áfram, þó að ekki sé óeðlilegt að sjá fjárfesta selja aðeins inn í miklar hækkanir. „Hlutabréfamarkaðurinn er hagstætt verðlagður að teknu tilliti til vaxtastigsins í landinu. Vextir á innlánum gefa neikvæða raunávöxtun og sparnaður er að leita meira inn á hlutabréfamarkaðinn,“ segir hann.

Að hans sögn hefur skuldabréfamarkaðurinn verið geysisterkur síðustu misseri og vextir á markaði lækkað mikið þó að enn sé hægt að festa jákvæða ríkistryggða raunvexti til langs tíma, ólíkt því sem þekkist erlendis. „Aukin eftirspurn hefur verið eftir hærri ávöxtunarkröfu, til dæmis í fyrirtækjaskuldabréfum, og munum við sjá það aukast. Það er breytt landslag þar sem vaxtastig hér á landi mun líklega vera viðvarandi lægra en við höfum áður búið við,“ segir hann.

12 mánaða V/H hlutfall OMXC25 er 26,2, hlutfall MXND vísitölunnar er 20,5, HEX er 19, OSEBX er 18,8 OMX30B er 18,6 og á Íslandi er markaðsvirðið 17 sinnum væntur hagnaður eftir tólf mánuði.

Magnús Örn segir að lág krafa á skuldabréfamarkaðnum styðji við hlutabréfamarkaðinn og ekki sé ólíklegt að verðmargfaldarar hækki. „Verðkennitölur eru enn lágar miðað við nágrannalöndin,“ segir hann og vekur athygli á að líklega muni skráð fyrirtæki geta greitt umtalsverðan arð þegar staða hagkerfisins batni. „Það er ekki óvarlegt að áætla að þær muni nema um þremur til fimm prósentum af markaðsvirði í eðlilegu árferði,“ segir hann.

Mogens Gunnar segir að heilt yfir sé hlutabréfamarkaðurinn hóflega verðlagður. „Það er eðlilegt að verðkennitölur hækki þegar vextir lækka. Við sjáum engin bólueinkenni enn sem komið er,“ segir hann. Búast megi við rekstrarbata hjá flestum félögunum í Kauphöllinni á árinu 2021 sem muni styðja við verðlagningu félaganna.

Sveinn telur að hlutabréfamarkaðurinn geti heilt yfir haldið áfram að hækka á næsta ári. „Það verður hins vegar töluvert flökt og ekki endilega öll félög með sömu möguleika þegar bóluefnið fer í umferð,“ segir hann.

Lífeyrissjóðir í hlutabréf

Mogens Gunnar telur að lífeyrissjóðir gætu horft meira til innlends hlutabréfamarkaðar á næstunni. Lækkandi vaxtastig hérlendis hefur fælandi áhrif á fjárfestingar í skuldabréfum og innlánum. „Krónan er tiltölulega veik um þessar mundir en væntingar eru um að hún styrkist þegar líða tekur á næsta ár. Auk þess hafa verið miklar hækkanir á erlendum hlutabréfum. Við það hafa erlendar eignir lífeyrissjóða hlutfallslega aukist og eru víða að nálgast langtímamarkmið. Í því ljósi er mögulega ekki eins áhugavert fyrir lífeyrissjóði að fjárfesta erlendis við núverandi aðstæður,“ segir hann.

Á undanförnum árum hafi lífeyrissjóðir lánað sjóðfélögum mikið til fasteignakaupa en nú séu heimilin að endurfjármagna fasteignalánin hjá bönkum sem bjóði nú betri kjör. Við það safnist upp fjármunir sem þurfi að fjárfesta. Mogens Gunnar telur að hluti af því fé gæti runnið inn á hlutabréfamarkaðinn.

Sjóvá hefur hækkað um 39 prósent frá áramótum.
Fréttablaðið/GVA

„Í nýrri fjárfestingarstefnu Gildis fyrir árið 2021 erum við að leggja upp með að auka nokkuð við vægi hlutabréfa, ekki síst á erlendum mörkuðum,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis. „Við horfum jafnframt nokkuð björtum augum á innlenda hlutabréfamarkaðinn á næstu misserum. Það er viðbúið að endurskipulagning í ferðaþjónustu muni taka tíma og vonandi mun sá geiri koma sterkari til baka. Heilt yfir teljum við horfur góðar í flestum geirum og að markaðurinn hérna heima verði sterkur áfram,“ segir hann.

Erlendir fjárfestar

Að sögn Mogens Gunnars er sömuleiðis líklegt að erlendir fjárfestar horfi í auknum mæli til Íslands þegar hlutabréfamarkaðurinn fari í vísitölumengi MSCI fyrir vaxtarmarkaði (e. frontier) um mitt næsta ár. „Það gæti vakið áhuga erlendra fjárfesta á að fjárfesta hér á landi í ljósi þess að krónan er veik og spár benda til að hagkerfið taki við sér á næsta ári. Það er þó rétt að hafa í huga að mengi erlendra fjárfesta hérlendis hefur verið þröngt. Ef til vill mun áhugi þeirra fyrst um sinn beinast að Arion banka og Marel en það eru fyrirtækin sem verða í vísitölunni.“

Sveinn segir að erlendir fjárfestar horfi mikið til gengis krónunnar þegar fjárfest sé hér á landi. Telji þeir að hún muni styrkjast eru meiri líkur á að þeir fjárfesti hérlendis en ef reiknað er með að hún muni veikjast er líklegt að þeir haldi sig til hlés. „Jafnvel þótt erlendir fjárfestar hafi fengið góða ávöxtun á skuldabréfa- eða hlutabréfamarkaði í gegnum tíðina hefur það komið fyrir að veiking krónunnar þurrkaði út ávöxtunina. Erlendir fjárfestar verja sig almennt ekki gegn gjaldeyrisáhættu,“ segir hann.

Kvika hefur hækkað um 36 prósent.

Snorra þykir líklegt að miklir fjármunir muni streyma á hlutabréfamarkaðinn. Að hans mati hefur hlutabréfaverð fasteignafélaganna lækkað of mikið að undanförnu. „Markaðsvirði þeirra er undir bókfærðu virði fasteignanna,“ bendir Snorri á en slær þann varnagla að byggt hafi verið of mikið af atvinnuhúsnæði á síðastliðnum árum.

Eins nefnir hann að minna sé um tjón hjá tryggingafélögunum þegar hægist um í hagkerfinu og því til viðbótar séu margir heima við um þessar mundir. Við þær aðstæður þurfi þau að greiða út færri tjón. Þá njóti tryggingafélögin góðs af góðu gengi á fjármálamörkuðum. Eins sé Arion banki hagstætt verðlagður.

„Sala smásöluverslana verður góð á næstunni en ég sé í raun ekki kauptækifæri í þeim þótt þær séu ekki ofmetnar á markaði. Sömu sögu er að segja af framleiðslufyrirtækjunum Marel og Brim,“ segir hann.

Heldur dökk mynd

Magnús Örn segir að ýmsir, þar með talinn Seðlabankinn, hafi dregið upp heldur dökka mynd af umsvifunum í hagkerfinu á næsta ári. Fari ferðaþjónustan af stað geti hún skilað umtalsverðum gjaldeyristekjum, eins myndi þjóðarbúið njóta góðs af því ef loðna finnst.

Hann er þó þeirra skoðunar að atvinnuleysi verði umtalsvert fram að sumri. „Það er mikilvægt að atvinnulífið verði undirbúið þegar viðspyrnan kemur og fyrirtækin verði ekki orðin gjaldþrota. Þess vegna eru aðgerðir á borð við hlutabótaleiðina mikilvægar. Til að atvinnulífið geti náð sér á strik þarf að vera mörkuð skýr stefna um það hvernig brugðist verði við COVID-19 smiti til að skapa fyrirsjáanleika í rekstri og auka líkur á að fyrirtæki séu klár í slaginn.“

Origo hefur hækkað um 34 prósent frá áramótum.
Mynd/Aðsend

Eins og komið var inn á hefur COVID-faraldurinn alls ekki aðeins haft neikvæð áhrif á félög í Kauphöllinni. Mogens Gunnar segir að rekstur smásöluverslana hafi gengið vel, sömu sögu sé að segja af tryggingafélögum og að veiran hafi haft lítil áhrif fjarskiptafélögin. Fyrir utan Icelandair séu það einkum fasteignafélögin sem hafi orðið fyrir búsifjum af völdum heimsfaraldursins. „Leigutakarnir eru þverskurður af atvinnulífinu og margir þeirra starfa meðal annars í ferðaþjónustu. Heilt yfir hefur Kauphöllin farið afar vel út úr heimsfaraldrinum. Flest fyrirtækin standa mjög vel og sum hver jafnvel betur en fyrir faraldurinn,“ segir hann.

Fín uppgjör

Magnús Örn hefur orð á því að uppgjörin á öðrum og þriðja ársfjórðungi hafi verið fín. „Vissulega er væntingum stillt í hóf í ljósi aðstæðna. Það hefur komið ánægjulega á óvart hve vel hefur tekist að hagræða í rekstrinum þegar á móti blæs. Sum fyrirtæki hafa notið góðs af heimsfaraldrinum eins og til dæmis þau sem eru í smásölu og upplýsingatækni.“

Sérfræðingar á markaði vekja athygli á að fyrirtækin hækki ekki bara vegna bættra horfa sem rekja má til COVID-19 bóluefnis. Síminn hafi til að mynda hækkað vegna væntinga um sölu fjarskiptainnviða, Arion banki í ljósi þess að bankinn megi hugsanlega greiða út arð, horfur séu á að hagræðing í rekstri Eimskips muni skila sér og hagræði muni felast í sameiningu Kviku og TM.

Hlutfall almennings mun minna hérlendis

„Hlutfall almennings á hlutabréfamarkaði hefur undanfarin ár verið lágt bæði í samanburði við það sem áður var og það sem þekkist annars staðar, eða um fjögur til fimm prósent,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri kauphallarinnar Nasdaq Iceland.

Magnús Harðarson, forstjóri kauphallarinnar Nasdaq Iceland.

„Þegar best lét eða árið 2002 stóð hlutabréfaeign almennings í 17 prósentum af markaðsvirði. Við teljum æskilegt að hún sé að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum hærri en nú er svo viðunandi sé eða á svipuðum slóðum og við sjáum á Norðurlöndunum.

Við höfum samt skynjað meiri áhuga almennings á því að taka þátt á markaði, eins og sjá mátti á útboði Icelandair Group í september sem og vel sóttri veffræðslu um fjárfestingar sem við stóðum fyrir um daginn ásamt HR og bönkunum,“ segir hann.

Magnús segir að það væri æskilegt ef heimilin fjárfestu í meira mæli á hlutabréfamarkaði. „Við þekkjum það frá nágrannalöndunum að fjárfestingar einstaklinga á markaði eru sérlega mikilvægar nýsköpunarfyrirtækjum. Aukin þátttaka einstaklinga á hlutabréfamarkaði býður einnig upp á fjölbreyttari skoðanaskipti, meiri valddreifingu og er einnig tæki til að jafna tekjudreifingu því hún þýðir að arður af fjárfestingum er ekki bundinn við fámennan hóp. Þá er líklegt að auknar fjárfestingar heimila á hlutabréfamarkaði auki samstöðu í samfélaginu með því að styrkja samband almennings og atvinnulífs.“

Athugasemdir