SoftBank Group hefur fjárfest fyrir tæplega einn milljarð dollara í sprotafyrirtæki sem er að þróa sjálfakandi heimsendingarþjónustu. Fjárfestingin gæti flýtt fyrir þróun sjálfakandi bíla. Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

Nuro safnaði 940 milljónum dollara frá tæknisjóði SoftBank sem ber nafnið VisionFund og er ógnarstór eða næstum 100 milljarðar dollara að stærð.

Fyrirtækið var stofnað árið 2016 og er nú metið á 2,7 milljarða dollara.

Nuro þróar rafmagnsbíla sem eiga að skutlast með sendingar í bæjum og borgum en keppinautar vinna að þróun á eins konar sjálfakandi rafmagnsleigubílum eða sendibílum fyrir lengri ferðir.

Rafmagnbíll Nuro er helmingi minni en hefðbundinn bíll að breidd og styttri en flestir fimm dyra bílar. Hann er gluggalaus og ekki i gert ráð fyrir að fólk sitji í honum. Bíllinn er með fjórum hurðum fyrir varning.

Nuro hefur smíðað sex bíla og hyggst nýta hið nýfengna fé til að byggja fleiri.

Fram kom í frétt á vef Fréttablaðsins í fyrrasumar að Kroger, sem rekur stærstu keðju stórmarkaða í Bandaríkjunum, eigi í samstarfi við Nuro

Stjórnendur fyrirtækjanna segja að með samstarfinu megi gera heimsendingar ódýrari og auðveldara verði að bjóða upp á hana á strjálbýlum svæðum í Bandaríkjunum.

Næstum þriðjungur þeirra sem svöruðu könnun á vegum Forrester Analytics sögðu að þeir nýttu ekki netverslanir í meira mæli vegna þess að þar kosti varan oft meira en í hefðbundum verslunum.

Netverslun telur rúmlega tvö prósent af bandaríska matvörumarkaðnum og margir reikna með að hlutfallið verði áfram lágt.