Hjalti Halldórsson er eigandi og framkvæmdastjóri útflutningsfyrirtækisins Bacco Seaproducts en fyrirtækið sérhæfir sig í að selja og koma fiskafurðum til heildsala erlendis og kaupir flestar tegundir fisks frá fiskvinnslum og útgerðum um land allt.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Hestamennska og hrossarækt er það sem gefur mér kraft og dregur hugann frá amstri dagsins, en við konan mín og yngri sonur eigum nokkra hesta. Ég reyni að komast í eina eða tvær hestaferðir á ári í góðum félagsskap. Ég var mikið í íþróttum hér áður fyrr, en fylgist meira með þeim núorðið. Þá reyni ég að komast á einn leik á Englandi á ári og stefni nú að því að skreppa til Birmingham og sjá frænda minn spila með Aston Villa fyrir vorið. Fer svo á hverju ári í einn laxveiðitúr í Laxá í Aðaldal. Fjölskyldan hefði eflaust nefnt vinnuna sem áhugamál þar sem ég ver mestum tímanum, en ég hef mætt miklum skilningi heima fyrir varðandi vinnuna og ferðalög sem henni tengjast.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Fer í góða sturtu, fæ mér eitthvað létt með kaffibollanum og renni yfir blöðin.

Hver er bókin sem þú ert að lesa eða last síðast?

Er að klára bókina Eftirlýstur sem er um Bandaríkjamanninn Bill Browder sem stofnar fjárfestingasjóð í Rússlandi og lendir í ýmsum hremmingum. Síðan eru nokkrar sem bíða á náttborðinu, m.a. síðasta bók Ólafs Jóhanns.

Ef þú þyrftir velja allt annan starfsvettvang, hver yrði fyrir valinu?

Ég mundi ekki velja mér annan starfsvettvang en gerði klárlega einhverja hluti öðruvísi ef ég lít til baka, reynslunni ríkari.

Hvað er það áhugaverðasta við það að starfa í atvinnugreininni?

Krafturinn og dýnamíkin er mikil í sjávarútvegi og nýjar áskoranir koma upp reglulega sem takast þarf á við. Sjávarútvegur hefur tekið gífurlegum breytingum frá því að ég hóf störf í greininni og miklar framfarir hafa orðið í allri virðiskeðjunni allt frá veiðum, búnaði og vinnslutækni til sölu- og markaðssetningar.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í starfinu?

Að skapa traust og trúverðugleika er eitt af því mikilvægasta sem ég tekst á við en við eigum viðskipti með mikil verðmæti í sjávarútveginum og því er mikilvægt að birgjar og viðskiptavinir beri traust til okkar. Í starfi mínu er mikilvægt að láta fólkið í kring um sig njóta sín sem best og leyfa því að taka sem flestar ákvarðanir en auðvitað geri ég miklar kröfur bæði til mín og annarra.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrarumhverfinu í dag?

Mikil samþjöppun hefur orðið á smásölumörkuðum erlendis sem við þurfum að aðlaga okkar starfsemi að. Eðlilegt er að sams konar þróun verði í íslenskum sjávarútvegi og eitthvað sem menn verða að horfast í augu við. Því tel ég mikilvægt að til staðar séu öflug sölu- og markaðsfyrirtæki sem tryggja að þær hágæðaafurðir sem unnar eru á Íslandi skili sér í hillur verslana á okkar helstu markaðssvæðum. Einnig má nefna að útganga Breta úr Evrópusambandinu er auðvitað áhyggjuefni og mikilvægt fyrir Íslendinga að halda vel utan um hagsmuni sína enda Bretland einn af stærstu mörkuðum fyrir ferskar og frystar íslenskar þorskafurðir.

Hvaða breytingar sérðu fyrir þér í atvinnugreininni á komandi árum og í hverju felast helstu sóknartækifærin?

Ég er bjartsýnn á framtíðina þar sem eftirspurn eftir fiski fer vaxandi í heiminum og nýir markaðir eru að opnast með nýjum tækifærum. Markaðssetning á fiski á eftir að breytast og færast nær neytendum í gegnum verslun á netinu en það kallar aftur á nýja hugsun og að yngra fólk komi inn í greinina með nýjar hugmyndir.

Helstu drættir

Nám

Viðskiptafræðingur frá HÍ 1991.

Störf

Hef starfað við sjávarútveg meira og minna frá 1993, fyrst í sex ár hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur. Síðan vann ég hjá stóru sænsku fyrirtæki sem gerði út skip frá Rússlandi og Litháen auk þess að vera með starfsemi í öðrum löndum. Árið 2004 keyptum við, ég og viðskiptafélagi minn, Fish­products Iceland út úr sænska fyrirtækinu og höfum við rekið það síðan. Fishproducts Iceland selur sjávarafurðir frá Rússlandi og fjárfesti einnig í rússneskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Auk þess sit ég í stjórnum nokkurra fyrirtækja.

Fjölskylduhagir

Er giftur Petrínu Sigurðardóttur viðskiptafræðingi og við eigum fjögur börn og tvö barnabörn