Tap veitingastaðanna Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins, sem eru meðal annars í eigu Hrefnu Sætran, jókst á milli ára. Tap hlutdeildarfélaga, þar á meðal gistiheimilis, dregur niður afkomuna, en veitingastaðirnir skiluðu rekstrarhagnaði.

Fiskmarkaðurinn, sem Hrefna á helmingshlut í á móti Ágústi Reynissyni, tapaði 26 milljónum árið 2019 samanborið við 84 milljóna tap árið áður.

Grillmarkaðurinn, sem Fiskmarkaðurinn á 60 prósenta hlut í, tapaði 37 milljónum árið 2019 samanborið við 25 milljóna króna tap árið áður. Guðlaugur Pakpum Frímannsson á 30 prósenta hlut í veitingastaðnum.

Ríflegt eigið fé

Eigið fé Fiskmarkaðarins var 238 milljónir króna við árslok og eiginfjárhlutfallið 76 prósent. Eigið fé Grillmarkaðarins var 190 milljónir króna við árslok og eiginfjárhlutfallið 63 prósent.

COVID-19 hefur gert það að verkum að Grillmarkaðnum var lokað í þrjá mánuði í ár og Fiskmarkaðnum í einn mánuð, segir í ársreikningum. Stjórnendur telja að ekki sé vafi á rekstrarhæfi veitingastaðanna því eigið fé þeirra sé mjög sterkt.

Fram kemur í ársreikningum að Fiskmarkaðurinn hafi keypt rekstrarstöðvunartryggingu með tryggingarfjárhæð upp að 42 milljónum króna og trygging Grillmarkaðarins nemi 336 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður Fiskmarkaðarins dróst saman í 13 milljónir króna í fyrra úr 15 milljónum króna árið áður. Tekjur veitingastaðarins drógust saman um 17 prósent á milli ára og námu 373 milljónum í fyrra.

Rekstrarhagnaður Grillmarkaðarins dróst saman í þrjár milljónir króna í fyrra úr 79 milljónum króna árið áður. Tekjur drógust saman um 14 prósent á milli ára og námu 717 milljónum króna í fyrra.

Tap vegna hlutdeildarfélags og hlutdeild í afkomu dótturfélaga dró afkomuna niður um 45 milljónir króna.