Fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson fjárfestir fer fyrir, og lífeyrissjóðurinn Birta verða í hópi þriggja stærstu hluthafa Play í kjölfar nýafstaðins hlutafjárútboðs hins verðandi flugfélags, hvort um sig með nærri 15 prósenta eignarhlut. Fiskisund og Birta fjárfestu bæði fyrir tæplega einn milljarð króna í útboðinu, sem lauk síðastliðinn föstudag, en heildarstærð þess nam yfir 40 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði vel á sjötta milljarðs króna.

Eignarhaldsfélagið FEA, sem Skúli Skúlason stýrir og varð eigandi alls hlutafjár í Play fyrir um ári síðan, er enn stærsti einstaki hluthafi Play og heldur á meira en fimmtungshlut eftir hlutafjárútboðið. Samkvæmt heimildum Markaðarins stendur hins vegar til að slíta FEA, sem hefur staðið undir fjármögnun á rekstri Play undanfarna mánuði og misseri, þegar flugfélagið verður skráð á First North-markaðinn í Kauphöllinni næstkomandi júní en þá er áformað að sækja um 20 milljónir dala í nýtt fjármagn til viðbótar við það sem félagið hefur þegar tryggt sér.

Aðrir helstu hluthafar Play, samkvæmt heimildum Markaðarins, eru meðal annars fjárfestingafélagið Stoðir, sem skráði sig fyrir rúmlega 600 milljónum króna í útboðinu og eignast við það um 9 prósenta hlut, tryggingafélagið VÍS og sjóðir í stýringu Akta. Eignarhlutur annarra fjárfesta sem komu að útboði Play, eins og eigenda Langasjós, sem á heildverslunina Mata og fjárfestingafélagið Brimgarða, og lífeyrissjóðsins Lífsverks er hins vegar litlu minni.

Í hópi nýrra einkafjárfesta sem bætast nú við hluthafahóp Play eru sömuleiðis félög í eigu Kristjáns M. Grétarssonar, eins hluthafa í Keahótelum, og bræðranna Björns Ólafssonar, framkvæmdastjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Þríhnjúkagígs, og Sigurðar Ólafssonar, framkvæmdastjóra hjá Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni, en það er einkum í eigu fjárfestingafélagsins Novator.

Hinir nýju fjárfestar í Play, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, eignast því mikinn meirihluta í félaginu, eða samanlagt hátt í 80 prósenta eignarhlut.

Búið er að ganga frá ráðningu Birgis Jónssonar, sem var síðast forstjóri Íslandspósts en hefur einnig starfað sem forstjóri Iceland Express og aðstoðarforstjóri WOW air, en hann tók til starfa sem forstjóri félagsins í byrjun vikunnar. Í hópi þeirra fjárfesta sem koma núna að félaginu, meðal annars Stoða og Fiskisunds, var lögð á það áhersla að Birgir yrði fenginn í forstjórastólinn.

Einar Örn Ólafsson, einn eigenda Fiskisunds, hefur tekið við sem stjórnarformaður Play.

Í kjölfar hlutafjárútboðs Play var boðað til aðalfundar og ný stjórn kjörin fyrir félagið. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur Einar Örn, sem hefur meðal annars verið stjórnarmaður í TM undanfarin ár og var um skeið forstjóri Skeljungs, tekið við sem stjórnarformaður Play.

Aðrir stjórnarmenn félagsins eru fyrrnefndur Skúli Skúlason, einn hluthafa flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates, Guðný Hansdóttir, fjárfestir og stjórnarmaður hjá VÍS, Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjártæknifyrirtækisins Two Birds og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá VÍS um margra ára skeið, og María Rúnarsdóttir, fjárfestir og stjórnarformaður Arctica Finance en verðbréfafyrirtækið hafði umsjón með hlutafjárútboði Play.

Play hefur nú þegar tryggt sér þrjár Airbus A321 leiguflugvélar til þess að hefja áætlunarflug á vinsæla áfangastaði íslenskra ferðamanna. Stefnt er að fyrsta flugi félagsins í júní næstkomandi. Þá gera áætlanir Play ráð fyrir því að flugvélafloti félagsins stækki í sex til átta þotur vorið 2022 og verði kominn í yfir tíu vélar á árinu 2023. Áformað er að fljúga bæði til áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu.

Virði Play áður en hlutafjárútboðinu lauk í síðustu viku var talið vera um 900 milljónir króna en það byggði einkum á þeim fjármunum sem Skúli, ásamt öðrum fjárfestum, hefur lagt Play til að undanförnu í gegnum félagið FEA.