Ný skýrsla frá IFG, rannsóknarstofnun um opinbera stjórnsýslu í Bretlandi, sýnir að erfitt verður fyrir Breta að ná góðum tvíhliða samningum eftir útgönguna úr ESB. Ein helsta ástæðan sé skortur á skýrri sýn og samskiptaleysi á milli ráðherra og samningamanna.

Auk samningaumleitana við Evrópusambandið sjálft eru fjórar aðrar umleitanir í gangi, til dæmis við Bandaríkin og Japan. IFG hefur áhyggjur af því að Bretar gætu þurft að breyta lögum til þess að landa samningum. Það gæti haft slæm áhrif á matvælaöryggi. Bandaríkjamenn gera kröfur um innflutning á erfðabreyttum matvælum og þeim sem skordýraeitur hefur verið notað á til Bretlands en það til stangast á við bresk lög og reglur ESB.

IFG hefur einnig áhyggjur af því að þessir fjórir tvíhliða samningar hafi afar lítil áhrif á landsframleiðsluna og séu að auki langt frá því að vera í sjónmáli. Samningur við Bandaríkin aðeins bæta 0,2 prósentum við landsframleiðslu til lengri tíma og samningur við Japani 0,07 prósentum.

Langstærsta úrlausnarefnið er samningurinn við ESB. Hann hefur dregist, bæði vegna COVID-19 og einstakra deilumála. Viðræður í júlí skiluðu engu og Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins, er ekki vongóður um samkomulag fyrir október en þá skella á ýmsir tollar og skattar. „Við höfum aðeins nokkrar vikur til viðbótar og ættum ekki að sólunda þeim,“ sagði hann.

Eitt helsta deilumálið eru fiskveiðar. Alex De Ruyter, forstöðumaður Brexitrannsóknarstofnunarinnar, segir líklegast að Bretar gefi þar eftir. Í staðinn gætu þeir samið um að fjármálamiðstöðin City of London fengi aðgang að evrópskum fjármálamörkuðum. Mun meiri hagsmunir væru þar í húfi en á miðunum.