FISK-Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, seldi síðastliðinn sunnudag nærri 10,2 prósenta hlut sinn í Brimi, sem útgerðarfyrirtækið hafði að stærstum hluta eignast aðeins þremur vikum áður, með rúmlega 1.300 milljóna króna hagnaði.

Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, keypti hlutinn af FISK, samtals 196,5 milljónir hluta á genginu 40,4 eða fyrir um 7,94 milljarða króna. Eftir viðskiptin fer ÚR í dag með 48 prósenta hlut í Brimi.

Útgerðarfyrirtæki kaupfélagsins kom fyrst inn í hluthafahóp Brims, sem áður hét HB Grandi, þann 18. ágúst síðastliðinn þegar félagið keypti um 8,3 prósenta hlut af Gildi lífeyrissjóði. Gengið í þeim viðskiptum nam 33 krónum á hlut og var kaupverðið því samtals fimm milljarðar króna. Fjórum dögum síðar bætti FISK-Seafood við eignarhlut sinn með kaupum á 34 milljónum hluta að nafnverði á genginu 36 og þá keypti félagið að lokum 11 milljónir hluta á genginu 36,06 þann 28. ágúst síðastliðinn.

FISK-Seafood greiddi því samanlagt um 6,62 milljarða króna fyrir bréf sín í Brimi – samtals 10,18 prósenta hlut – sem félagið hefur núna skömmu selt frá sér með 1.320 milljóna króna hagnaði fyrir skatta.

FISK-Seafood, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, gekk á síðasta ári frá kaupum á öllum eignarhlut Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem er stærsti hluthafi Brims, í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum en um var að ræða þriðjungshlut. Kaupverðið nam 9,4 milljörðum króna.