FISK Seafood hefur keypt útgerð og bát útgerðarinnar Ölduóss á Stöðvarfirði fyrir 1,8 milljarða króna. Aflaheimildir Ölduóss samsvara um 700 þorskígildistonnum. Bátur félagsins, Dögg SU-118, verður gerður út frá Stöðvarfirði út yfirstandandi fiskveiðiár áður en afhending fer fram að fullu. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Frá þessu er greint á vefsíðu FISK.

„Með kaupunum styrkir útgerð FISK Seafood rekstur sinn og hlutdeild í bolfiskvinnslu félagsins. Þorskveiðikvótinn eykst um tæplega 5 prósent og gera má ráð fyrir að viðbótaraflinn samsvari tveggja til þriggja vikna afkastagetu landvinnslu FISK Seafood á Sauðárkróki og Snæfellsnesi,“ segir í tilkynningu FISK.

„Með þessum viðskiptum er FISK Seafood að fikra sig inn í smábátaútgerð á línu og skak og ef vel tekst til munum við halda áfram að byggja okkur upp á því sviði. Vertíðarbátarnir yrðu kærkomin viðbót við það aukna líf sem höfnin hér á Sauðárkróki hefur öðlast á undanförnum árum og þetta fyrsta skref með kaupunum á Dögg verður strax mikil styrking fyrir landvinnsluna og verðmætin sem hún er að skapa á hverjum degi,“ er haft eftir Friðbirni Ásbjörnssyni, framkvæmdastjóra FISK Seafood.

FISK Seafood með stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins og er eigu Kaupfélags Skagfirðinga og á um 5,5 prósent af útgefnum aflaheimildum. Félagið hagnaðist um þrjá milljarða króna á síðasta ári.