Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, hafa óskað eftir því að láta af störfum hjá fyrirtækinu. Þeir munu báðir starfa áfram þar til eftirmenn þeirra hafa verið ráðnir. Þetta kemur fram í tilkynningu Haga til Kauphallarinnar.

„Vel heppnuðum samruna Haga og Olís er nú lokið. Fyrsta heila rekstrarár sameinaðs félags er að baki, þar sem markmiðum samrunans var náð. Á þessum tímapunkti tel ég rétt fyrir mig persónulega að staldra við og huga að öðru og á sama tíma tel ég gott fyrir Haga að nýr aðili taki við keflinu með ferskar hugmyndir í farteskinu,“ er haft eftir Finni í tilkynningunni.

„Mér er efst í huga þakklæti til þess samstarfsfólks og samferðafólks sem ég hef unnið með og kynnst á þeim rúmlega 22 árum sem ég hef starfað fyrir félagið,“ bætir Finnur við.

„Tíma mínum hjá Bónus er nú að ljúka,“ segir Guðmunur, „og það verður erfitt að kveðja þetta frábæra fyrirtæki eftir hartnær þrjá áratugi. Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð og ég kveð það fólk sem ég hef kynnst á þessum tíma með söknuði, þá sérstaklega öflugt og frábært starfsfólk Bónus, sem og samstarfsaðila og viðskiptavini.“nuði, þá sérstaklega öflugt og frábært starfsfólk Bónus, sem og samstarfsaðila og viðskiptavini.“