Opinberar upplýsingar gefa ekki fullnægjandi mynd af stöðu mála á leigumarkaði, að mati Íbúðalánasjóðs. Flest bendir til þess að leigumarkaðurinn sé talsvert stærri en tölur gefa til kynna, en samkvæmt nýjustu tölum eru um 14 prósent þjóðarinnar á leigumarkaði, eða um 50 þúsund manns.

 „Þinglýstir leigusamningar, sem metnir eru virkir á landinu, eru samkvæmt þessari greiningu um 9.200. Það gera rúmlega 5 leigjendur á hvern leigusamning sem verður að teljast ólíklegt,“ segir í mánaðarskýrslu ÍLS fyrir marsmánuð. „Leigumarkaðurinn er því örugglega stærri en tölur um þinglýsta leigusamninga gefa til kynna,“ segir jafnframt, og að ný deild hafi verið stofnuð til að auka greiningar um leigumarkaðinn. 

Reykjanesbær stærsti leigumarkaður landsins


Þá segir að ef tekið sé mið af stærri sveitarfélögum landsins, komi í ljós að Reykjanesbær virðist vera hlutfallslega stærsti leigumarkaður landsins, með um 13,5 prósent af íbúðafjöldanum.

Akureyrarkaupstaður kemur þar á eftir með um 11 prósent af íbúðum bæjarins í útleigu. Hæsta hlutfallið yfir landið allt mælist í Þingeyjarsveit þar sem það reiknast um 17 prósent.  

Skýrslan í heild.