Fimm hæstaréttardómarar fengu tækifæri til að svara fyrir um fjárhagsleg tengsl sín við föllnu bankana áður en hrunmál rötuðu inn á borð Hæstaréttar en þeir neituðu að svara. Þetta kemur fram í fjórða og nýjasta þætti hlaðvarps Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, og Björns Jóns Bragasonar, Það skiptir máli.

„Um mánaðarmótin apríl-maí 2010 að Eyjan sendi fyrirspurn á alla hæstaréttardómara um fjármál þeirra og fjármálatengsl þeirra við bankana. Lét þess getið að þetta væri gert vegna hugsanlegs vanhæfis dómaranna í málum sem kæmu upp gagnvart þessum sakborningum,“ segir Jón Steinar í þættinum.

Níu dómarar voru spurðir, fjórir svöruðu spurningum Eyjunnar.

„Það var undirritaður, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson, sem var reyndar vanhæfur í þessu máli af því að hann átti aðild að skýrslunni miklu um hrunið. Hinir svöruðu ekki. Það var sent svar frá hæstaréttarritara að það reyndi á vanhæfi þegar einstök mál kæmu upp við réttinn, þau voru ekki komin þá vorið 2010. Svo var sagt frá þessu á Eyjunni og málið búið.“

Fram kom í fréttum Eyjunnar á sínum tíma að óviðeigandi sé fyrir dómara við Hæstarétt að tjá sig um hugsanleg mál er komi til þeirra kasta í framtíðinni.

Hér má lesa frétt Eyjunnar, og framhaldsfrétt.

Jón Steinar segir að þessir dómarar fimm hafi svo dæmt í hrunmálum.

„Svo gerist það að þessir dómarar sem ekki gáfu upplýsingar, þeir settust í mál þessara sakborninga, hver á fætur öðrum, haldandi það væntanlega að það vissi enginn af þessum fjármálatengslum þeirra. Sem komu svo síðar í ljós og var ekkert smáræði í sumum tilfellum. Það voru háar fjárhæðir, miklir peningahagsmunir. Þeir sögðu ekki frá því þótt þeir fengju tilefni til þess og settust bara í málið,“ segir hann.

„Ég gagnrýni þetta harðlega. Það er ekki svona sem dómstólar í siðuðu ríki eiga að starfa.“

Jón Steinar segir að í kjölfar þess að málið sprakk upp í fjölmiðlum hafi verið settar reglur um upplýsingagjöf af þessum toga, í því felist viðurkenning að það skipti máli fyrir dómara hvort hann eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta. „Það á ekki að þurfa að segja þetta, þetta er svo augljóst.“