Norðurál hefur undirritað samning við austurríska fyrirtækið Hammerer Aluminum Industries um sölu á 150 þúsund tonnum af umhverfisvottuðu áli úr álverinu á Grundartanga yfir fimm ára tímabil. Árleg framleiðslugeta álversins á Grundartanga er um 320 þúsund tonn, og því fara tæplega 10 prósent af árlegri framleiðslu til Hammerer.

Samkvæmt upplýsingum frá Norðuráli er álið sem um ræðir með eitthvert lægsta kolefnisfótspor sem um ræðir, en það er framleitt undir vörumerkinu Natur-Al. Kolefnisfótspor Natur-Al er sagt um fjögur tonn af koldíoxíði á hvert tonn af áli, allt frá öflun báxíts og vinnslu áloxíðs til álvinnslu. Útblástur vegna f lutninga hráefnis til framleiðslu og fullunninnar vöru til kaupanda er einnig inni í fjögurra tonna tölunni.

Meðaltalið á heimsvísu er um 16 tonn af koldíoxíði á hvert framleitt tonn af áli, eða um fjórum sinnum hærra. „Við trúum því að með því að bjóða viðskiptavinum upp á þennan valkost séum við að leggja okkar af mörkum til að skapa betri og grænni framtíð. Aukin notkun á áli í stað stáls eða annarra þyngri málma í framleiðsluiðnaði hefur dregið verulega úr losun koldíoxíðs, til dæmis með aukinni sparneytni bifreiða,“ segir Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls.