Sum af stærstu eignastýringarfyrirtækjum heimsins, meðal annars Fidelity og Franklin Templeton, voru í hópi þeirra erlendu fjárfesta sem keyptu samanlagt um 11 prósenta hlut í nýafstöðnu hlutfjárútboði Íslandsbanka.

Til viðbótar við Fidelity og Franklin Templeton, sem eru samanlagt með eignir í stýringu að andvirði meira en 20 billjónir Bandaríkjadala, eru einnig fjárfestingarsjóðir á vegum breska eignarstýringarfélagsins Schroders á meðal erlendra sjóða sem bætast nú við hluthafahóp Íslandsbanka í kjölfar útboðsins, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Ríkissjóður seldi sem kunnugt er samtals 35 prósenta hlut í bankanum í útboðinu fyrir rúmlega 55 milljarða króna á útboðsgenginu 79 krónur á hlut, sem jafngildir genginu um 0,85 miðað við bókfært eigið fé Íslandsbanka í lok fyrsta ársfjórðungs.

Sjóðir í rekstri bandaríska eignastýringarisans Fidelity eru ekki ókunnugir íslenskum hlutabréfamarkaði en þeir hófu meðal annars að fjárfesta í Símanum á síðasta ári og áttu samanlagt rúmlega 0,3 prósenta hlut í félaginu í árslok 2020. Þá hafa einnig sjóðir í stýringu Franklin Templeton nýlega farið að fjárfesta í Arion banka, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, en í síðustu viku áttu þeir 3,4 milljónir hluta að nafnverði í bankanum, eða sem nemur um 500 milljónum króna að markaðsvirði.

Áður hefur verið greint frá því að tveir erlendir fjárfestingarsjóðir, Capital World Investors og RWC Asset Management, væru á meðal svonefndra hornsteinsfjárfesta í útboðinu – ásamt íslenskum lífeyrissjóðunum Gildi og LIVE – og hefðu skuldbundið sig til að kaupa samanlagt rúmlega 5 prósenta hlut.

Eftirspurn í hlutafjárútboði Íslandsbanka, sem lauk á þriðjudag í síðustu viku, reyndist vera samtals 486 milljarðar króna og umframeftirspurn eftir bréfum bankans var því níföld. Fjöldi hluthafa eftir útboðið verður um 24 þúsund talsins, sem er mesti fjöldi hluthafa allra skráðra fyrirtækja á Íslandi, en bréf bankans verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni á morgun. Tilboð undir einni milljón króna voru ekki skert.

Gert er ráð fyrir að listi yfir stærstu hluthafa bankans í kjölfar útboðsins verði birtur síðar í vikunni. Íslenska ríkið verður eftir sem áður stærsti eigandinn með 65 prósenta hlut og hefur skuldbundið sig til að selja ekki frekari bréf í bankanum fyrr en í fyrsta lagi að sex mánuðum liðnum.

Öll eignarhaldsfélög og fjársterkir einstaklingar, sem skráðu sig fyrir meira en 75 milljónum króna í hlutafjárútboði Íslandsbanka, fengu einungis úthlutun upp á eina milljón króna, óháð því hversu stórum hlut þeir sóttust eftir, eins og greint var frá í forsíðufrétt Fréttablaðsins í síðustu viku. Lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og tryggingafélög þurftu einnig að sæta miklum skerðingum, en fengu þó talsvert stærri skerf en einkafjárfestar og sömuleiðis gíraðir fjárfestingasjóðir.