Sjóður í rekstri Fidelity Investments, eins stærsta sjóðastýringarfyrirtækis heims, hefur nýlega bæst við hluthafahóp Símans með lítinn eignarhlut. Samkvæmt heimildum Markaðarins á það tæplega 20 milljónir hluta að nafnverði, sem er metinn á um 135 milljónir miðað við núverandi gengi bréfa félagsins. Það jafngildir um rúmlega 0,2 prósenta eignarhlut.

Verulega hefur dregið úr umsvifum erlendra fjárfestingarsjóða í hluthafahópi Símans á undanförnum misserum, en í byrjun árs í fyrra fóru þeir samanlagt með vel yfir 20 prósenta hlut í félaginu. Í dag er sjóður í stýringu Eaton Vance hins vegar eini erlendi sjóðurinn á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Símans, með tæplega 1,7 prósents hlut.

Hlutabréfaverð Símans hefur hækkað um tæplega 30 prósent frá áramótum og við lokun markaða í gær stóð gengi bréfa félagsins í 6,94 krónum á hlut. Orri Hauksson, forstjóri Símans, sagði í síðustu uppgjörstilkynningu að til skoðunar væri að fjármagna dótturfélagið Mílu sérstaklega, í stað þess að fjármagna samstæðuna sem eina einingu. Míla mun taka við fleiri verkefnum frá Símanum á næstu mánuðum, svo sem rekstri farsímadreifikerfis og IP-nets, og þannig verða stærra hlutfall samstæðunnar.