Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica, var endurkjörin formaður Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, á aðalfundi samtakanna sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í gær.
Ásamt Fidu voru kjörin í stjórn þau Alexander Jóhönnuson, stofnandi Ignas, Ellen María Bergsveinsdóttir, framkvæmdastjóri Mink Campers, Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia og Róbert Helgason, framkvæmdastjóri KOT. Fyrir í stjórn sátu Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis, og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ALOR.

Áherslumál samtakanna skiptast í fjögur svið; fjármagn, umhverfi, ímynd og annað tilfallandi sem varðar hagsmuni sprotafyrirtækja hverju sinni. Helsta hagsmunamál SSP er að hér á landi verði áfram öflugt skattahvatakerfi vegna rannsókna og þróunar innan sprotafyrirtækja. Í dag nemur skattfrádráttur 35 prósent af útlögðum kostnaði við nýsköpunarverkefni hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og segir SSP að þetta hvatakerfi geri fleiri fyrirtækjum kleift að verða til og vaxa hér á landi.
Samtök sprotafyrirtækja samanstanda af 50 fyrirtækjum í ólíkri atvinnustarfsemi og starfa þau öll sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Félagsmenn SSP eru sprotafyrirtæki á ólíkum vaxtarstigum en eiga það öll sameiginlegt að vera með veltu undir milljarði íslenskra króna og verja stórum hluta veltu sinnar í rannsóknir og þróun.
„Samstarfið innan SSP og SI hefur verið ánægjulegt og árangursríkt á síðastliðnu starfsári og því er ég afar þakklát og spennt að leiða samtökin áfram. Stuðningur við sprotafyrirtæki og frumkvöðla er gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Á starfsárinu sem framundan er hyggst stjórn leggja enn ríkari áherslu á samstöðu meðal íslenskra sprotafyrirtækja,“ segir Fida Abu Libdeh, formaður Samtaka sprotafyrirtækja og stofnandi og framkvæmdastjóri GeoSilica